26. maí 2009 : Vorferð barna og ungmenna í Heiðmörk

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Í þessari dagsferð gefst ungmennunum einstakt tækifæri til að hittast og kynnast krökkum í öðrum deildum sem starfa með Rauða krossinum. Ferðin var afar vel sótt en rúmlega 70 börn og ungmenni auk sjálfboðaliða tóku þátt í ár.

Alls komu 28 börn og ungmenni frá Kópavogsdeild að þessu sinni. Úr Enter starfinu, sem er vikulegt starf  með sjálfboðaliðum fyrir 9-12 ára innflytjendur, komu 18 börn. Eldhugarnir voru 10 talsins en þeir eru unglingar á aldrinum 13-16 ára sem einnig hafa hist einu sinni í viku í vetur. Hópurinn var í heild sinni mjög alþjóðlegur en krakkarnir frá Kópavogsdeild komu meðal annars frá Póllandi, Litháen, Tælandi, Dóminíska lýðveldinu, Rúmeníu og Íslandi.

4. maí 2009 : Bjartari framtíðarsýn

Fyrir tveimur árum sá ég mig ekki vera sú týpa sem gæti stundað Háskólanám því að mér gekk illa í skóla og hafði nánast engan áhuga. Ég er búin að gera þrjár tilraunir til að fara í framhaldsskóla og byrja önnina alltaf með bjartsýni og ég ætla að vinna heiminn en þegar líður á önnina þá hef ég alltaf misst áhugann. Ég tel að þetta sé út af því ég hef aldrei verið neitt sérstaklega góð í námi í grunnskóla og var alltaf miklu betri í verklegum fögum eins og handavinnu og matreiðslu. Ég hafði ef til vill mikla minnimáttarkent gagnvart öðrum sem gengur vel að læra því að ég er lesblind og geri að mestu enn.

Enn síðan ég byrjaði að vinna sem sjálfboðaliði og var kosin í stjórn URKÍ þá hefur mín minnimáttarkennd minnkað og ég er farinn að sjá að það skiptir engu hvort þú ert menntaður eða ómenntaður þegar þú vinnur sjálfboðastarf því að þar eru allir jafnir og skoðanir hvers og eins skipta alveg jafn miklu máli.