28. ágú. 2009 : Uppskeruhátíð Austurbæjarbíós – Húss Unga Fólkssins, mánudaginn 31. ágúst kl. 18:00.

Á sjötta tug ungs listafólks sýnir verk sín á uppskeruhátíð Austurbæjarbíós mánudagskvöldið 31. ágúst kl. 18.00. Dagskránni lýkur svo með tónleikum þar sem ungar og upprennandi hljómsveitir láta ljós sitt skína.

Listamennirnir sem sýna verk sín hafa haft aðsetur í Austurbæjarbíói í sumar og unnið verk sín þar en húsið hefur verið rekið sem miðstöð ungs fólks á aldrinum 16-25 ára.

20. ágú. 2009 : Ungir sjálfboðaliðar í Kópavogi taka á móti ungum sjálfboðaliðum frá Palestínu

Um þessar mundir eru tveir ungir sjálfboðaliðar frá Rauða hálfmánanum í Palestínu staddir á Íslandi í boði Rauða kross Íslands og í gær komu þeir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, tóku á móti þeim. Ungmennin frá Palestínu dvelja á landinu í þrjár vikur til að kynna sér starfsemi Rauða krossins en næstu dagana munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sjá um dagskrána þeirra. Hún hljóðar meðal annars upp á kynningu á deildinni, hestaferð í boði Íshesta, hvalaskoðun í boði Eldingar og aðrar skoðunarferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

13. ágú. 2009 : Skyndihjálparhópur URkÍ-R að störfum á Gay Pride

Skyndihjálparhópur Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Reykjavík var við sjúkragæslu meðan Gay pride hátíðin fór fram síðasta laugardag. 

12. ágú. 2009 : Ungir sjálfboðaliðar vöktu athygli á Genfarsamningunum á 60 ára afmælinu

Ungir sjálfboðaliðar Rauða krossins vöktu athygli vegfarenda í miðbænum á því að í dag eru 60 ár liðin frá undirritun Genfarsamninganna sem veita mönnum vernd í vopnuðum átökum. Börnin báru skilti með þeim reglum sem ber að virða í stríðsátökum og stöðvuðu gesti og gangandi til að fræða þá um samningana sem bjargað hafa ótöldum mannslífum. Börnin sækja þessa dagana námskeiðið Mannúð og menning í boði Garðabæjardeildar Rauða krossins.

Rauði krossinn reisti einnig fangaklefa á Lækjartorgi að eftirmynd hefðbundins fangaklefa í Rúanda. Eftir þjóðarmorðin þar í landi árið 1994 dvöldust að meðaltali um 17 manns í einu í slíkum klefa sem var 6 fermetrar að stærð. Fangarnir urðu að sofa og sinna öðrum þörfum sínum innan þessara veggja, oft um margra mánaða skeið. Vegfarendum var boðið að giska á hversu margir hefðu gist fangaklefann í einu, og fara inn í klefann ásamt þeim fjölda sem að jafnaði hafðist þar við.