15. des. 2009 : Æskan og ellin á jólunum

Æskan og ellin er samstarfsverkefni Kjósarsýsludeildar, grunnskóla Mosfellsbæjar og Eirhamra, þjónustuíbúða aldraða í Mosfellsbæ.  Tilgangur með verkefninu er að auka vitund og tengsl yngri kynslóðarinnar við þá eldri.  Í nútíma þjóðfélagi virðist bilið milli kynslóða aukast jafnt og þétt og er verkefninu ætlað að vinna gegn þeirri þróun og um leið draga úr félagslegri einangrun.

Kjósarsýsludeild útvegaði gjafir sem nemendur 6. bekkjar Varmárskóla pökkuðu inn og skreyttu fyrir eldri borgara á Eirhömrum. Krakkarnir teiknuðu og skrifuðu inní jólakort og fóru síðan í roki og rigningu í göngutúr sl. föstudag ásamt kennurum sínum með alla pakkana handa heimilisfólkinu þar á bæ. Börnin stóðu sig mjög vel voru kurteis og yndisleg og voru sjálfum sér og skólanum til fyrirmyndar. Þau tóku lagið ásamt heimilisfólkinu á Eirhömrum. Allir fengu smá nammi í þakklætisskyni í lokin.

2. des. 2009 : Ungmenni á Ísafirði og Gambíu skiptast á bréfum

Nemendur í 9. bekk Grunnskólans á Ísafirði hafa verið í bréfasamskiptum við börn á sama aldri í North Bank í Gambíu. Er þetta í tengslum við vinadeildarsamstarf milli Rauða kross deilda á Vestfjörðum og deilda í North Bank.

Nemendurnir fengu fræðslu um landið hjá ungmennum frá Gambíu sem heimsóttu Rauða krossinn síðasta vetur. Þeir unnu síðan verkefni um land og þjóð og héldu sýningu á verkum sínum fyrir sjálfboðaliða Ísafjarðardeildar sem eru nemendur í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

1. des. 2009 : Jafningjafræðsla á alþjóðlegum alnæmisdegi

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi er í dag 1. desember. Fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hefur af því tilefni sinnt forvarnarfræðslu um alnæmi fyrir alla lífsleikninema Menntaskólans í Kópavogi undanfarna daga og vikur. Auk þess hélt hópurinn fyrirlestur og kynningu á Tyllidögum skólans í haust.

Fræðsluhópur sinnir fræðslu og forvörnum, bæði fyrir jafningja og yngri hópa og vinnur með eitt átaksverkefni á hverri önn. Verkefnið sem varð fyrir valinu í haust var fræðsla um alnæmi og hefur hópurinn leitast við að vekja jafningja sína til umhugsunar. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks, auk fyrirlesturs þar sem fjallað var um helstu staðreyndir er varða sjúkdóminn. Fræðsluhópur vann þetta átaksverkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.