30. des. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Menntaskólanum í Kópavogi tóku á móti viðurkenningu fyrir vel unnin störf

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf. Á síðustu önn útskrifuðust 14 nemendur úr áfanganum en hann er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar og Menntaskólans í Kópavogi.

Meðal verkefna sem nemendur unnu að voru störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, félagsstarf með 13-16 ára ungmennum af íslenskum og erlendum uppruna, vinna með innflytjendum á aldrinum 9-12 ára og aðstoð við jafningja með það að markmiði að liðsinna við nám og rjúfa félagslega einangrun. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í Rauðakrosshúsinu sem haldinn var 20. nóvember síðastliðinn og þar söfnuðust 300 þúsund krónur sem runnu til styrktar verkefnum innanlands.

29. des. 2010 : Ungir Hafnfirðingar láta sig mannúðarmálin varða

Börnin á leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði hafa um árabil styrkt hjálparstarf Rauða krossins. Það gera þau með því að safna dósum og flöskum sem þau tína í göngutúrum sínum í nágrenninu og eitthvað kemur heiman að frá. Þau heimsóttu Hafnarfjarðardeildina fyrir skömmu og sungu nokkur lög fyrir starfsfólkið sem skemmti sér vel.

Alls söfnuðu börnin á Norðurbergi samtals 21.043 krónum í ár. Peningarnir fara í sjóð „tombólubarna“ sem er notaður til að kaupa skólavörur fyrir börnin á Haítí sem eiga um sárt að binda eftir hamfarirnar.

17. des. 2010 : Margt og mikið að gerast hjá Móral

Krakkarnir í Móral, ungmennastarfi Kjósarsýsludeildar Rauða krossins, héldu jólamarkað í Álafosskvosinni nú í desember. Til sölu voru fjölbreyttar og fallegar prjónavörur frá sjálfboðaliðum og velunnurum deildarinnar og ilmandi heimagerður brjóstsykur sem krakkarnir höfðu útbúið.

Ágóði markaðsins var 50.000 krónur og rennur hann í jólaúthlutun Kjósarsýsludeildar

Mórall er hópur krakka 13-16 ára sem hittist alla mánudaga kl. 20 í Þverholti 7.

Krakkarnir fræðast um Rauða krossinn, vinna verkefni tengd hugsjónum og starfi Rauða krossins um allan heim, fara í ferðir og hitta aðrar ungmennadeildir. Það kostar ekkert að vera með. Komdu og kíktu ef þú þorir....

15. des. 2010 : Börn og unglingar úr Gufunesbæ afhenda ágóða af jólamarkaði

Börn og unglingar í frístundaheimilum, frístundaklúbbi og félagsmiðstöðvum afhentu fulltrúum Rauða krossins ágóða af jólamarkaði sem haldinn var í Hlöðunni við Gufunesbæinn 2. desember s.l. Seld voru jólakort, jólasmákökur, brjóstsykur, fímó-skart, perlumyndir og margt fleira sem börn og unglingar höfðu útbúið í sameiningu.

Í Geiralundi við Gufunesbæinn var hægt að gæða sér á kakói, sykurpúðum og piparkökum gegn vægu gjaldi.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Hlöðuna og í Geiralund þennan dag og lagði um leið góðu málefni lið en alls söfnuðust rúmar 75 þúsund krónur sem renna til styrktar barnaheimilum í Malaví.

5. des. 2010 : Kveðja til sjálfboðaliða

Kæru URKÍ félagar

Við sendum ykkur kærar kveðjur í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans sem haldinn er hátíðlegur um allan heim í dag, 5. desember. Að þessu tilefni viljum við þakka ykkur öllum fyrir vel unnin störf í þágu URKÍ sem og Rauða krossins í heild. Með von um áframhaldandi gott samstarf.

Fyrir hönd stjórnar URKÍ,
Ágústa Ósk Aronsdóttir, formaður
Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaformaður

29. nóv. 2010 : Námsaðstoð í nóvember og desember

Kópavogsdeild Rauða krossins býður upp á ókeypis námsaðstoð yfir prófatímann fyrir framhaldsskólanemendur. Aðstoðin fer fram í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs að Hábraut 2, á milli klukkan 17 og 19, dagana 29. nóvember, 1., 2. og 7. desember. Munu sjálfboðaliðar sem búa yfir góðri sérþekkingu í stærðfræði vera til aðstoða fyrir þá sem þurfa.

Einnig er hægt að óska sérstaklega eftir aðstoð í öðrum fögum með því að hafa  samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða á netfangið [email protected].

Tilgangur þessa verkefnis er að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi og koma til móts við breyttar aðstæður vegna slæms efnahagsástands.

25. nóv. 2010 : Skyndihjálparhópur höfuðborgarsvæðisins tekur til starfa

Neyðarnefnd deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu og Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R) hafa gert með sér samstarfssamning um starfsemi Skyndihjálparhóps.

Skyndihjálparhópurinn er tilraunaverkefni til þriggja ára og getur fólk allt frá 16 ára aldri tekið þátt í starfinu. URKÍ-R mun sjá um sjálfboðaliða hópsins á aldrinum 16-25 ára sem annast sjúkragæslu á viðburðum framhaldsskóla, en Neyðarnefnd heldur utan um starf fyrir sjálfboðaliða 23 ára og eldri sem standa munu fyrir fræðslu, kynningum og að draga úr skaða hjá ýmsum jaðarhópum í samfélaginu. Aðeins sjálfboðaliðar sem eru sjálfráða geta tekið þátt í gæslu og viðburðum, en ungt fólk á aldrinum 16-18 ára getur tekið þátt í æfingum og þjálfun. Allir sjálfboðaliðar Skyndihjálparhóps sem taka vaktir í gæslu og/eða viðburðum fara í inntökuviðtöl og fá góða skyndihjálparþjálfun.

22. nóv. 2010 : Roksala á markaði Kópavogsdeildar

Fjöldi fólks mætti í Rauðakrosshúsið í Kópavogi á laugardaginn og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 300.000 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

18. nóv. 2010 : Nemendur í SJÁ 102 vinna lokaverkefni sitt fyrir Kópavogsdeild

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 vinna þessa dagana að því að setja upp markað Kópavogsdeildar en hann er lokaverkefni þeirra í áfanganum. Nemendurnir eru 14 talsins á þessari önn og hafa unnið sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, með Enter- börnunum og í Dvöl. Þar að auki sátu þau grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þau tóku einnig þátt í landssöfnun Rauða krossins þann 2.október síðastliðinn, Göngum til góðs og auk þess hafa þau haldið dagbók um störf sín sem þau skila nú í lok annar.

Á markaðinum verða seld handverk sjálfboðaliða deildarinnar, sauma-og prjónavörur, bakkelsi sem nemendurnir baka og annað föndur. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Einnig verður hægt að kaupa leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik- myndir og fleira.

16. nóv. 2010 : Börn og ungmenni í starfi Kópavogsdeildar útbúa handverk fyrir markað

Síðustu vikur hafa börnin í Enter og unglingarnir í Eldhugum, barna- og unglingastarfi Kópavogsdeildarinnar unnið að gerð handverks sem selt verður á markaði hennar á laugardaginn, 20. nóvember næstkomandi. Vinnan hefur gengið vel en Enter börnin hafa unnið að gerð dagatals og Eldhugarnir búið til lakkrísbrjóstsykur. Þess má einnig geta að ungmenni úr Plúsnum, starfi fyrir 16-24 ára sjálfboðaliða, hafa búið til hálsklúta, hárskraut og skartgripi sem einnig verða til sölu á markaðinum.

Markaðurinn verður haldinn í Rauðakrosshúsinu, Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk, eins og prjónavörur, sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, heimagerðar kökur og handgerðir munir frá Mósambík.

27. okt. 2010 : Á flótta á Eiðum

Á flótta er hlutverkaleikur fyrir 13 ára og eldri, sem gefur fólki tækifæri til að upplifa í 24 klukkutíma hvað það er að vera flóttamaður. Í stuttu máli er ætlunin að gefa fólki raunsanna upplifun af því hvað það er að vera flóttamaður.

Á meðan á leiknum stendur upplifa þátttakendur hvernig það er að vera „óvelkominn”, „á flótta”, „fórnarlamb skrifræðis”, „háður neyðarhjálp” o.fl. Þátttakendum er þó aldrei ógnað líkamlega á einn eða annan hátt eða með vopnaskaki og fer leikurinn fram bæði innandyra og utan.

29. sep. 2010 : Framhaldsskólanemar hvattir til að ganga til góðs

Framhaldsskólanemar um allt land eru þessa dagana að fá hvatningu til að ganga til góðs næstkomandi laugardag. Fulltrúar Rauða krossins hafa hitt og talað við nemendur í hádegishléum og tímum eins og lífsleikni, kynnt fyrir þeim markmið söfnunarinnar og einföldu skrefin sem þeir taka til að ganga til góðs. Nemendafélög framhaldsskóla eru einnig að hvetja félaga sína til að taka þátt í söfnuninni. Samband íslenskra framhaldsskólanema hvetur bæði aðildarfélög sín sem og alla framhaldsskólanema til að leggja söfnuninni lið.

Fanney Karlsdóttir, sjálfboðaliði Rauða krossins, hefur útbúið kynningarefni sem notað er til að kynna söfnunina í framhaldsskólum landsins. Fanney hefur einnig farið sjálf í nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu og kynnt söfnunina. -Viðbrögðin hafa verið góð og það er gaman að hvetja nemendur til þess að láta gott af sér leiða með þessum hætti, segir Fanney. Ljóst er að ef fjöldi framhaldsskólanema tekur þátt í söfnuninni verður það mikilvægur liðsafli fyrir Rauða krossinn sem þarf um 3.000 sjálfboðaliða til að ná að banka upp á hjá öllum heimilum í landinu.

21. sep. 2010 : Líflegt starf í Takti

Ungt fólk til athafna er samstarfsverkefni Rauða krossins og vinnumálastofnunar. Níu deildir Rauða krossins eru aðilar að verkefninu; Reykjavíkur-, Hafnarfjarðar-, Garðabæjar-, Álftanes-, Kjósarsýslu-, Kópavogs-, Árnesinga-, Akranes-, og Suðurnesjadeild. Markmið verkefnisins er að þátttakendur fræðist um starfsemi Rauða krossins, séu virk á meðan á atvinnuleit stendur, styrkist í atvinnuleitinni og séu þannig betur í stakk búin til að sækja um nám eða vinnu.  

Innan verkefnisins er Taktur, samstarfsverkefni deildanna á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni Takts fór vel af stað í haust og völdu um 50 manns Rauða krossinn. Lögð er áhersla á að fá innflytjendur til liðs við verkefnið með það að markmiði að þeir læri betri íslensku, vinni í ferilskrárgerð og atvinnuleit meðfram því að sinna sjálfboðaliðastarfi hjá Rauða krossinum. Það er líflegt meðal hópsins þegar talað er á hinum ýmsu tungumálum. Íslenskuhópurinn sem Páll í Hafnarfjarðardeild heldur utan um er svo rétt að fara af stað.

18. sep. 2010 : Fjölmenning eða einsleitni og einangrun?

Grein birt í Morgunblaðinu laugardaginn 18. september 2010

Í febrúar árið 2008 birtist í blaði þessu grein eftir tvo af þáverandi stjórnarmönnum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands (URKÍ).

Greinin bar fyrirsögnina "Siðferðisboðskapur óskast" og fjallaði um fordóma Íslendinga gagnvart innflytjendum enda höfðu íslensk nýnasistafélög og rasískir klúbbar þá mikið verið í umræðunni. Nú, tveimur og hálfu ári síðar virðist því miður sem fátt hafi breyst í þessum málum. Á sama tíma og Íslendingar sameinast á bakvið ein hjúskaparlög auk þess að fussa og sveia yfir fordómum lítils hóps nágranna okkar í Færeyjum bendir margt til þess að við eigum nokkuð í land með að uppræta óforsvaranlega og tilefnislausa fordóma hér heima fyrir.

Fordómar gagnvart innflytjendum hafa verið til umræðu undanfarna daga en umræðan opnaðist þegar fréttir bárust af feðgum sem flúðu land. Um var að ræða íslenska ríkisborgara af erlendum uppruna sem yfirgáfu Ísland í lögreglufylgd vegna ofsókna.

Margir spyrja sig, er til einföld lausn á fordómum? ...

6. sep. 2010 : Mórall - Vetrarstarfið hafið

Mórall er hópur krakka á aldrinum 13-16 ára sem hittist alla mánudaga klukkan 20 í húsnæði Kjósarsýsludeildar Rauða krossins að Þverholti 7 í Mosfellsbæ.

Krakkarnir fræðast um Rauða krossinn, vinna verkefni tengd hugsjónum og starfi Rauða krossins um allan heim, fara í ferðir og hitta aðrar ungmennadeildir. Það kostar ekkert að vera með. Komdu og kíktu ef þú þorir....

Dagskráin fram að jólum er fjölbreytt og má þar nefna fótboltamót, umhverfisfræðslu, heimsókn í aðra deild, skyndihjálparfræðsla, fataflokkun, markað, brjóstsykurgerð og fleira.

1. sep. 2010 : SJÁ 102 í Flensborgarskóla

Áfanginn SJÁ102 er að fara í gang þessa haustönnina í Flensborgarskóla. Nemendur geta tekið þátt í sjálfboðnu starfi hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins, farið á námskeið og lagt sitt af mörkum í fjáröflunarverkefni og fengið 2 einingar fyrir.

Meðal verkefna í boði eru: Heimsóknavinir, störf í Læk - athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, ungmennastarf og starf í Rauða krossbúðinni. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja annað námskeið fyrir sjálfboðaliða. Einnig munu nemendur vinna kynningar- og fjáröflunarverkefni. Nemendur skrifa dagbók um vinnu sína. Áfanginn byggir á hugmyndum um þátttökunám (service learning) og er próflaus. 

24. ágú. 2010 : Mannúð og menning fyrir börnin

370 börn á aldrinum 7-12 ára sóttu sumarnámskeið Rauða krossins Mannúð og menning. Að þessu sinni voru þau haldin í Reykjavík, Kópavogi, Álftanesi, Garðabæ, Mosfellsbæ, Ísafirði og Þingeyri.
 
Námskeiðin byggja á fræðslu og leikjum sem miða að því að börnin tileinki sér mannúðarhugsjónir Rauða krossins og tengi þær við daglegt líf. Börnin fá fræðslu um starf Rauða krossins, skyndihjálp, fjölmenningu og umhverfisvernd. Námskeiðunum var skipt eftir tveimur aldurshópum, 7-9 ára og 10-12 ára. Gjaldfrjálst var á námskeiðin og boðið var upp hádegisverð. 

23. ágú. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Kópavogdeild í sumarbúðum í Finnlandi

Dagana 2.-8. ágúst fóru fjögur ungmenni fyrir hönd Rauða kross Íslands í sumarbúðirnar Herzi Camp en þær eru haldnar árlega í Finnlandi. Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, báðar 16 ára sjálfboðaliðar í Plúsnum, fóru frá Kópavogsdeild ásamt þeim Bjarna Haukssyni frá Suðurnesjadeild og Fanneyju Sumarliðadóttur frá Stykkishólmsdeild.

Sumarbúðirnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 16-29 ára, fötluðum sem ófötluðum og er markmið þeirra að auka víðsýni og færni fólks til að hjálpa einstaklingum með hamlanir. Um 45 manns dvöldu í búðunum frá fjórum löndum; Finnlandi, Íslandi, Egyptalandi og Kosovo.

13. ágú. 2010 : Hamagangur á sumarbúðum URKÍ í Alviðru

Þessa dagana eru hátt í 40 manns samankomnir á sumarbúðum Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Alviðru í Ölfusi. Þátttakendur eru unglingar á aldrinum 12-16 ára, víðs vegar af landinu. Leiðbeinendur eru sjálfboðaliðar URKÍ á aldrinum 18-30 ára.

Á búðunum er farið í fjölbreytta leiki jafnframt sem unnin eru verkefni sem tengjast mannréttindum og hjálparstarfi. Einnig er mikið lagt upp úr útivist, kvöldvökum og annarri skemmtun.

Myndirnar eru teknar fyrsta daginn þegar veðrið lék við þátttakendur. Skyndilega skall þó á manngert úrhelli í formi vatnsslags. Um kvöldið kom Birna Halldórsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins og fjallaði um hjálparstarfið á Haítí.

11. ágú. 2010 : Gömul gildi endurvakin á Gleðidögum

Um 70 börn á aldrinum 6-12 ára sóttu sumarnámskeiðin Gleðidaga- Hvað ungur nemur, gamall temur – sem haldin voru á vegum fjögurra deilda Rauða krossins, Kópavogsdeildar, Álftanesdeildar, Kjósarsýsludeildar og Klausturdeildar.

Námskeiðin voru haldin í samstarfi við Öldrunarráð Íslands og leiðbeinendur komnir af léttasta skeiðinu enda tilgangurinn með þeim að auka samskipti barna og eldra fólks og endurvekja gömul gildi. Börnin voru þátttakendur í leik og starfi með fullorðnum og öfluðu sér flóðleiks og þekkingar í gegnum samskiptin. Að auki var bætt við léttri skyndihjálparfræðslu.

2. júl. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Plúsnum á leið á sumarbúðir til Finnlands

Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, sjálfboðaliðar í ungmennastarfi Kópavogsdeildar Rauða krossins taka þátt í sumarbúðum á vegum finnska Rauða krossins í Herttoniemi Helsinki 2.-8. ágúst næstkomandi. Hulda og Dagbjört hófu þátttöku sína í Rauða kross starfi með því að gerast Eldhugar en færðu sig svo yfir í Plúsinn þegar þær urðu eldri en það er starf fyrir 16-24 ára ungmenni. Auk þeirra fara tvö önnur ungmenni frá Rauða krossinum á Suðurnesjum og Stykkishólmi í sumarbúðirnar.

29. jún. 2010 : Heilsuhópur Takts fór í Esjugöngu

Heilsuhópur Takts – Ungt fólk til athafna fór á dögunum í gönguferð upp á Esju. Til að ná úr sér þreytunni eftir vel heppnaða fjallgöngu endaði ferðin í heita pottinum í Nauthólsvík.

Heilsuhópurinn er einn af fjölmörgum hópum í Takti, virkniverkefni Rauða krossins. Einnig er boðið uppá mömmuhóp, prjónahóp, myndlistarhóp, hönnunarhóp, heimildamyndagerð, íslenskukennslu og margt fleira. Síðan eru ótal sjálfboðaliðastörf innan Rauða krossins sem unga fólkið hefur valið sér og tekið þátt í.

15. jún. 2010 : URKÍ-H stóð fyrir Lifandi bókasafni

Ungmennastarf Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins tók á móti fólki í sjálfboðamiðstöðinni á Björtum dögum og bauð upp á lifandi bókasafn. Miklar og fræðandi umræður voru í gangi og mikið hægt að fræðast um alls kyns heima og geima. 

Lifandi bókasafn var lokaverkefni ungmennastarfsins á þessum vetri. Hafnarfjarðardeildin þakkar öllu því góða fólki sem kom og stóð vaktina sem bækur bókasafnsins. Án þeirra hefði þetta ekki orðið að veruleika.

10. jún. 2010 : Líflegur Rauða kross markaður á Thorsplani

Þátttakendur í verkefninu Taktur héldu líflegan Rauða kross markað á dögunum. Unga fólkið sá um að velja vörur, setja þær upp og annast söluna. Markaðurinn var fjáröflun til styrktar Rauða kross starfs í Malaví.

Markaðurinn var haldinn í 50 fermetra tjaldi á Thorsplani fyrir utan Rauða kross deildina í Hafnarfirði. Selt var ýmiss konar handverk frá Malaví eins og skálar, salatáhöld, skartgripir og myndir. Einnig var mjög fjölbreyttur fatamarkaður með fötum fyrir alla, bæði unga sem aldna og var úrvalið það mikið að það fyllti allt tjaldið.

7. jún. 2010 : Sumarnámskeiðin Mannúð og menning eru hafin

Í dag hófust sumarnámskeiðin Mannúð og menning sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins býður krökkum á aldrinum 7-12 á, þeim að kostnaðarlausu. Námskeiðin eru haldin á tveimur stöðum í borginni, í Aflagranda 40 og í Breiðholtsskóla. Krakkarnir voru komnir á fullt í skemmtilegum nafnaleikjum þegar starfsmaður deildarinnar leit við með myndavél í morgun.

Alls verða 12 námskeið haldin næstu 6 vikurnar og skiptist hópurinn í tvennt 7-9 ára og 10-12 ára. Reykjavíkurdeildin býður þátttakendum upp á hádeigsverð á meðan námskeiðinu stendur, en börnin koma með nesti fyrir kaffitímana.

 

2. jún. 2010 : Myndband um Konukot

Árni Þór Theodórsson kvikmyndargerðarmaður og sjálfboðaliði hjá Takti lauk á dögunum við fyrsta sjálfboðaliðaverkefnið sitt, kynningarmyndband um Konukot, athvarf fyrir heimilislausar konur, rekið af Reykjavíkurdeild Rauða krossins.

Myndbandið var sýnt í fyrsta sinn á landsfundi Rauða krossins en í dag var myndbandið frumsýnt í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25. Við það tilefni var gestum boðið upp á ljúffengar veitingar í boði OSUSHI.

19. maí 2010 : Vorferð barna og unglinga

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Um 70 manna hópur mætti við Viðeyjarhöfn og hélt af stað á vit ævintýra eyjarinnar.

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir tók á móti hópnum og kynnti staðarhætti. Þar er margt forvitnilegt að sjá og vel hægt að eyða löngum tíma í að spóka sig í göngutúrum um þessa fallegu eyju. Þegar Guðlaug lauk sínu máli var komið að ratleikjum. Eldri krakkarnir spreyttu sig í skyndihjálp og þrautum tengdum henni en yngri krakkarnir reyndu á kunnáttu sína um Rauða krossinn, þar sem grundvallarmarkmiðin skipuðu stóran sess.

17. maí 2010 : Nemendur í Kársnesskóla styrkja Föt sem framlag

Í dag tók Kópavogsdeild Rauða krossins við góðu framlagi frá Kársnesskóla til verkefnisins Föt sem framlag við mikla athöfn en nemendur í lífsleikni í 9. bekk höfðu unnið að því að sauma og prjóna föt í allan vetur. Afraksturinn lét ekki á sér standa þar sem nemendurnir afhentu deildinni um 200 flíkur í heildina sem munu verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Pakkar með flíkum sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands. Hver pakki inniheldur prjónaða peysu, teppi, húfu, sokka og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum, taubleyjum, buxum og treyju.

10. maí 2010 : Viðtal við sjálfboðaliða Takts

Taktur er samstarfsverkefni Rauða kross Íslands og Vinnumálastofnunar sem gegnur út á að virkja ungt fólk í atvinnuleit. Um 100 manna öflugur hópur vinnur nú í margvíslegum verkefnum á vegum Rauða krossins, Árni Þór Theodórsson sem er 23 ára og útskrifaður úr kvikmyndagerð frá New York er einn þeirra.

Í fréttablaði Takts var Árni valinn sjálfboðaliði vikunnar, Árni varð fyrir valinu því hann er búinn að vera mjög virkur í Takti og tilbúinn að taka að sér aukaverkefni. En auk þess hefur hann gert kynningarmyndband um Konukot sem verður frumsýnt á aðalfundi Rauða krossins 15.maí. Við fengum Árna í smá yfirheyrslu.

Aldur og fyrri störf ?
Ég ólst upp í sveit rétt fyrir utan Húsavík þar til ég var orðinn 7 ára en þá fluttum við einmitt til Húsavíkur þar sem ég svo kláraði grunnskóla og byrjaði í framhaldsskóla. Þegar ég var 18 flutti ég svo frá Húsavík með kærustunni minni, og höfum við búið á mörgun stöðum síðan. Þar má nefna, Akureyri, Indland, New York, og Reykjavík. Ég kláraði nám í kvikmyndagerð í New York og er það svo gott sem allur minn námsferill. Síðan ég kláraði námið hef ég verið atvinnulaus, en þannig komst ég einmitt í samband við Rauða krossinn. Í dag bý ég í miðborg Reykjavíkur með kærustunni minni Kötu og hundinum mínum Símoni.
 

6. maí 2010 : Taktur - virkniverkefni fyrir ungt fólk stundar sjósund

Heilsuhópur Takts hélt til Nauthólsvíkur á dögunum og brá sér í sjósund. Taktur er verkefni fyrir ungt atvinnulaust fólk á höfuðborgarsvæðinu sem sprottið er upp úr verkefninu Ungt fólk til athafna sem Rauði kross Íslands, félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun settu á laggirnar til að tryggja sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur.  Auk hefðbundinna sjálfboðaverkefna eru nokkrir ný og vinnuhópar að störfum.

Ísleifur starfsmaður Nauthólsvíkur tók á móti hópnum og leiddi í allan sannleik um sjóböð og leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að. Það er t.d mælt með því að standa aðeins á bakkanum áður en vaðið er út í. Svo er galdurinn að labba hægt út í sjóinn og fara svo smátt og smátt með líkamann ofan í. Að þessu loknu er í lagi að taka smá sundsprett en mjög mikilvægt er að hlusta á líkamann og vera ekki of lengi ofan í. Forstöðumaður Nauthólsvíkur segir að margir tali um það að sjósund bæti hressi kæti og hafi góð áhrif á geðheilsu og að sumir séu hreinlega háðir sundinu. Í heilsuhópi Takts eru skráðir um 10 manns en einungis þrír þorðu að fara út í.

5. maí 2010 : Vetrarstarf Plússins

Á liðnum vetri hafa sjálfboðaliðahópar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir 16-24 ára, unnið að ýmsum verkefnum.

Sjálfboðaliðar hönnunarhóps leyfðu sköpunargáfunni að njóta sín og endurhönnuðu og saumuðu föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Afraksturinn voru hárskraut og klæðnaður sem var til sölu á handverksmörkuðum deildarinnar og í Rauða kross búðunum. Vörurnar vann hópurinn úr fatnaði sem fenginn var úr Fatasöfnunarstöð Rauða krossins.

30. apr. 2010 : Lærði að prjóna lopapeysu á einum mánuði

Allt frá því að Dvöl tók til starfa hafa nokkrir skiptinemar á vegum AUS, sem eru alþjóðleg ungmennaskipti, verið þar sem sjálfboðaliðar. Dvöl er athvarf fyrir fólk með geðraskanir þar sem Kópavogsdeild Rauða krossins kemur að reksti.

Ungmennunum hefur verið vel tekið af gestum og vinnuframlag vel þegið af starfsfólki.

Í byrjun apríl kom til Dvalar stúlka frá Slóvakíu sem heitir Ráchel Kovácová, 24 ára gömul og sálfræðingur að mennt. Hún verður í Dvöl þangað til í desember á þessu ári.

27. apr. 2010 : Ungmennastarfið í Þjóðleikhúsinu

Um miðjan apríl fór hópur úr krakkastarfi og ungmennastarfi Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins í skemmtilega heimsókn í Þjóðlekhúsið. Ferðin byrjaði ekkert allt of vel þar sem strætóinn bilaði á miðri leið og þurfti því að breyta ferðatilhöguninni. En krakkarnir gerðu bara gott úr því og komust að lokum í Þjóðleikhúsið. Þar var vel tekið á móti þeim og fengu þau frábæra leiðsögn um leikhúsið. Heyrðu allt um starfseminna þar, fengu að skoða stóra sviðið bæði að ofan og undir því, fóru í alla króka og kima baksviðs, skoðuðu hvernig leikmyndin virkar, sáu búningsherbergi leikaranna, fengu að máta hárkollur og margt fleira. 

Við þökkum Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir þessar frábæru móttökur. 

27. apr. 2010 : Landsfundur Ungmennahreyfingarinnar

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða krossins (URKÍ) var haldinn laugardaginn 26. apríl síðastliðinn. Að lokinni skýrslu stjórnar og umræðum um fjárhags- og framkvæmdaáætlun tóku við fjörugar stjórnarkosningar þar sem fjöldi fólks var í framboði. Ekki stóð til að kjósa formann en Pálína Björk Matthíasdóttir ákvað á fundinum að segja af sér formennsku vegna þess að hún er í námi erlendis. Eru hennar færðar góðar þakkir fyrir framlag sitt til URKÍ.

Stjórn URKÍ árið 2010-2011 verður þannig skipuð:
Aðalmenn: Ágústa Ósk Aronsdóttir formaður, Margrét Inga Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Arnar Benjamín Kristjánsson, Auður Ásbjörnsdóttir, Arna Garðarsdóttir og Guðný Halla Guðmundsdóttir. Varamenn: Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Hrönn Björgvinsdóttir.

19. apr. 2010 : Tækifæri tekur til starfa á Skagastöðum

„Tækifæri" var opnað með viðhöfn á Akranesi föstudaginn 9. apríl, en það er samstarfsverkefni Rauða krossins, Félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Vinnumálastofnunnar og Akranesbæjar.

Að sögn Árna Guðmundar Guðmundssonar verkefnisstjóra er markmið Skagastaða að skapa aðstöðu fyrir atvinnulaus ungmenni á aldrinum 16-30 ára, þar sem hægt verður að vinna að því að skapa verkefni, hitta aðra, þróa viðskiptahugmyndir, rjúfa félagslega einangrun með ögrandi verkefnum, halda uppi virkri atvinnuleit og hvetja til umræðu um þá atvinnumöguleika sem bjóðast á Akranesi.

Reiknað er með að allt að 37 ungmenni geti nýtt sér Tækifæri í byrjun og verkefnið þróist svo í takt við óskir og vilja unga fólksins.

15. apr. 2010 : Framboð til stjórnar Ungmennahreyfingar Rauða krossins

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands verður haldinn laugardaginn 24. apríl.

Þeir sem áhuga hafa á að bjóða sig fram til stjórnarsetu eru hvattir til að gera það.

Áhugasamir sendi erindi þess efnis á netfangið [email protected].

15. apr. 2010 : Börn í ungmennastarfi Stöðvarfjarðardeildar safna fyrir bágstadda á Haítí

Í vetur hafa yngri börnin í ungmennastarfi Stöðvarfjarðardeildar Rauða krossins safnað peningum fyrir börn á Haítí sem urðu hart úti í jarðskjálftunum þar í vetur. Til að safna peningum, ráku þau Litlu Rauða kross búðina á Stöðvarfirði í einn dag, seldu lukkumiða og gerðu sitthvað fleira.

Þegar þau skunduðu í bankann með peningana og lögðu þá inn á söfnunarreikning Rauða kross Íslands vildi svo skemmtilega til að Þóra Björk Nikulásdóttir formaður Stöðvarfjarðardeildar, sem einnig er starfsmaður bankans, tók á móti þeim við komuna í bankann.

Alls söfnuðu þessi duglegu börn, rúmlega fimmtíu og fimm þúsund krónum.

8. apr. 2010 : Frásögn frá Jórdaníu

Á spennandi vegabréfakvöldi unglingastarfs URKÍ-H um daginn kynntu systurnar Shirin Erla og Golnaz krökkunum heimaland sitt Jórdaníu.

Systurnar eru báðar búsettar í Hafnarfirði og hafa tekið virkan þátt í starfi Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Á vegabréfakvöldinu sögðu þær frá landinu sínu, matarmenningunni og hvernig var að búa í Jórdaníu. Þetta var í annað skipti sem Shirin mætir til að kynna ungu Rauða kross fólki landið sitt en áður hafði hún heimsótt krakkana í barnastarfinu. Margt áhugavert kom fram í máli þeirra systra og voru allir mun fróðari um þetta fjarlæga land eftir heimsóknina.

Vegabréfaverkefni URKÍ-H er hluti af fræðslustarfi sem unnið er í barna og unglingastarfi Rauða krossins. Þar fræðast krakkarnir um framandi lönd og menningu með það að markmiði að auka viðsýni sína og umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Ýmis lönd hafa verið kynnt frá því að verkefnið hófst eins og t.d. Svíþjóð, Palestína, Gambía og nú síðast Jórdanía.

6. apr. 2010 : Sumarbúðir Ungmennahreyfingar 12-16 ára

Mannréttindi og hjálparstarf

Sumarbúðir Ungmennahreyfingar Rauða krossins, Mannréttindi og hjálparstarf, verða haldnar dagana 11.-15. ágúst 2010 að Alviðru í Ölfusi. Búðirnar eru fyrir unglinga á aldrinum 12-16 ára og fjöldi miðast við 30 manns. Þátttökugjald er 20.000 krónur.

Dagskrá mótsins verður blanda af gamni og alvöru. Unnið verður með málefni sem tengjast mannréttindum og hjálparstarfi með hlutverkaleikjum og hópverkefnum. Einnig verður mikið lagt upp úr leikjum, útivist, kvöldvökum og annarri skemmtun.

Leiðbeinendur verða sjálfboðaliðar Ungmennahreyfingar Rauða krossins, 18 ára og eldri. Þeir hafa allir sótt sérstakt leiðbeinendanámskeið Rauða krossins og skyndihjálparnámskeið.

Skráning


Nánari upplýsingar veitir Jón Brynjar Birgisson, verkefnisstjóri á landsskrifstofu Rauða kross Íslands í síma 570 4000 eða á netfangið [email protected]

.

29. mar. 2010 : Heimsókn frá Frostheimum

Það komu góðir gestir í heimsókn í Reykjarvíkurdeild Rauða krossins á mánudagsmorgun í dymbilvikunni, það voru krakkar úr frístundarheimilinu Frostheimum sem komu færandi hendi. Krakkarnir höfðu sett saman jólamarkað í desember, þar sem þau föndruðu og skreyttu og seldu handverk sitt gestum og gangandi. Ágóðan gáfu þau til hjálparstarfs Rauða kross Íslands í Malaví. Starfsmaður Rauða krossins í Reykjavík heimsótti krakkana í Frostheima í janúar og sagði þeim frá fjölbreyttu hjálparstarfinu í Malaví og svaraði spurningum þeirra.

Í dag komu svo krakkarnir færandi hendi og afhendu Rauða krossi Íslands söfnunarféð sem rennur óskipt til hjálpar þurfandi barna í Malaví. Hópurinn fékk sér létta hressingu í Reykjavíkurdeildinni horfði á stutt myndskeið með Hjálpfús og létu taka af sér mynd.

Það er vissulega gaman að taka á móti svona flottum, kurteisum og hressum krökkum eins og krakkarnir í Frostheimum eru.

29. mar. 2010 : Ungmenni Kópavogsdeildar skapa sitt eigið heimshorn

Ungmennahópur Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur fengið afnot af einu herbergi í sjálfboðamiðstöðinni og vinnur nú að því að gera það að „sínu”. Ungir sjálfboðaliðar úr röðum Eldhuga og Plússins hafa haft penslana á lofti og skapað sitt eigið „heimshorn” eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Ungmennin máluðu heimskort á einn vegginn ásamt mynd af stofnanda Rauða krossins, Henry Dunant. Fleiri hugmyndir eru á teikniborðinu hjá ungmennunum til að skreyta herbergið en það á að vera vettvangur fyrir unga fólkið til að geta hist og jafnvel lært eða haft það notalegt án þess að eiginleg samvera sé á dagskrá. Þá mun herbergið einnig verða nýtt undir Enter-starfið fyrir unga innflytjendur.

26. mar. 2010 : Ungmennadeild stofnuð við Kjósarsýsludeild

Í gærkvöldi var stofnfundur ungmennadeildar Kjósarsýsludeildar Rauða krossins (URKÍ-Kjós) haldinn í Sjálfboðamiðstöðinni, Þverholti 7. Lög deildarinnar voru samþykkt og stjórn skipuð. Ágústa Ósk Aronsdóttir var kjörin formaður URKÍ-Kjós, en hún hefur borið hitan og þungan af ungmennastarfi deildarinnar undanfarin ár. Aðrir stjórnarmenn hafa einnig verið virkir í ungmennastarfi deildarinnar og URKÍ. Þau eru Þrúður Kristjánsdóttir, Anna Dúna Halldórsdóttir, Arnar Benjamín Kristjánsson og Gísli Freyr Guðbjörnsson.

Þessi kraftmiklu ungmenni eru stórhuga varðandi uppbyggingu ungmennastarfsins í Kjósinni og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.

 

25. mar. 2010 : Nemendur í Melaskóla safna fyrir Haítí

Nemendur í þriðja bekk Melaskóla söfnuðu rúmlega 44 þúsund krónum til styrktar hjálparstarfi Rauða kross Íslands á Haítí. Hrafnhildur Sverrisdóttir, sendifulltrúi hjá Rauða krossinum, heimsótti börnin og tók við framlagi þeirra.

Meðal barnanna var Þórir, nemandi í fjórða bekk, sem er frá Haítí en hann aðstoðaði Hrafnhildi við að svara spurningum nemenda um lífið á Haítí. Hrafnhildur sýndi þeim svo myndir og sagði þeim frá hjálparstarfinu.

Þó nokkuð hefur verið um það undanfarið að skólar hafi leitað til Rauða krossins með fræðslu um hjálparstarfið á Haítí eða önnur verkefni Rauða krossins.

24. mar. 2010 : Ungmennastarfið í fræðsluferð

Félagar í Ungmennastarfi deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu dvöldu í Alviðru um síðustu helgi við leik og fræðslu.

Fræðslan var unnin upp úr námsefninu Kompási, handbók um mannréttindi fyrir ungt fólk sem Evrópuráð gaf út.

Hver hópur sá um eitt atriði á kvöldvökunni og var mikið lagt til. Þegar skemmtiatriðum lauk fóru krakkarnir út í hlöðu þar sem boðið var upp á skotbolta í myrkri, með upplýstum bolta.

Í lok ferðar var komið við í sundlaug Hveragerðis og þvegið af sér fyrir heimferð í rigningunni en hún virtist elta hópinn.

23. mar. 2010 : Evrópuvika gegn kynþáttafordómum

Í tilefni af Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti tóku unglingstarf Rauða krossins í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi, Mannréttindaskrifstofa, unglingastarf Þjóðkirkjunnar, Soka Gakkai á Íslandi og sjálfboðaliðar SEEDS á Íslandi höndum saman og stóðu fyri viðburðum í Smáralind til að vekja athygli á vikunni og fagna fjölmenningu á Íslandi.

Unga fólkið tók gesti og gangandi tali og spjallaði um kynþáttafordóma, dreifði fræðsluefni, barmmerkjum, póstkortum og nammi. Krakkarnir máluðu sig í framan í mismunandi litum og klæddust bolum með slagorðinu, Njótum fjölbreytileikans!

19. mar. 2010 : Ungir heimsóknavinir

Ungir heimsóknavinir er nýtt verkefni innan Kjósarsýsludeildar sem unnið er í samstarfi við Lágafellsskóla, Varmárskóla og dvalarheimilið Eirhamra.  Verkefnið er framhald af öðru samstarfsverkefni þessara aðila sem kallast Æskan og ellin á jólunum sem hefur það markmið að brúa bilið milli kynslóðanna.

Verkefnið hófst í síðustu viku þegar sex 6. bekkingar úr Lágafellsskóla heimsóttu Eirhamra ásamt sjálfboðaliða deildarinnar.  Í morgun fóru svo krakkar úr Varmárskóla í heimsókn og voru heimsóknirnar báðar mjög ánægjulegar.  Krakkarnir voru áhugasamir, prúðir og kurteisir og fannst heimsóknin fróðleg.  Íbúar og starfsfólk Eirhamra tók vel á móti krökkunum og þótti gaman að fá svona skemmtilega heimsókn.

18. mar. 2010 : Plúsinn styrkir börn á Haítí

Hulda, Unnur og Dagbjört fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands og Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs um 60 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem hópurinn hélt 6. mars síðastliðinn. Peningurinn verður nýttur til að aðstoða börn á Haítí sem eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið 12. janúar.

Kristján og Þórir sögðu að fjárhæðin myndi nýtast afar vel enda væri mikil þörf á áframhaldandi aðstoð í landinu. Haítí var bágstatt ríki fyrir skjálftann en núna væri uppbyggingarstarf í gangi og enn mikil þörf á aðstoð.

16. mar. 2010 : Góðgerðadagur í Kvennaskólanum

Tjarnardögum Kvennaskólans í Reykjavík er nýlokið. Þá var í fyrsta sinn haldinn góðgerðardagur skólans þar sem nemendur unnu með góðgerðarfélögum að margskonar málefnum.

Rauði krossinn naut góðs af hugsjónum krakkanna í bekknum 3. FU sem unnu sjálfboðastarf við söfnun og flokkun á fötum auk þess að selja til fjáröflunar vöfflur með rjóma. Þrjár stöllur komu færandi hendi með afrakstur sölunnar sem var tæplega 17 þúsund krónur til Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.  Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

12. mar. 2010 : Gleðidagar hlaut tilnefningu til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins

Verkefnið Gleðidagar, hvað ungur nemur gamall temur, hlaut tilnefningu til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar. Rauða krossi Íslands og Öldrunarráði voru veitt verðlaunin.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að tilnefningin hafi verið „fyrir hið frumlega verkefni Gleðidagar þar sem eldri borgarar miðla börnum af reynslu sinni og þekkingu.“ 

Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum auk heiðursverðlauna og voru afhent af Forseta Íslands í gær.

Gleðidagar eru vikulöng sumarnámskeið ætluð börnum á aldrinum 7 til 12 ára. Leiðbeinendur á námskeiðunum eru aðallega eldri borgarar en þeim til aðstoðar eru nemendur í félagsráðgjöf við HÍ og sjálfboðaliðar Rauða krossins. Tilgangur námskeiðanna er að sameina unga og aldna báðum til hagsbóta. Börnin kynnast á námskeiðunum gömlum gildum og hefðum en einnig hugsjónum Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni.

12. mar. 2010 : Töff krakkar á Rauða kross balli

Þegar Stóra Rauða kross búðin opnaði á Eskifirði kom upp sú hugmynd að halda Rauða kross ball  í Knellunni sem er félagsmiðstöð ungmenna á Eskifirði. Þegar Knellan flutti í nýtt húsnæði á dögunum var ákveðið að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.

Allir ballgestir versluðu sér föt í Stóru Rauða kross búðinni en hagnaðurinn var látinn renna til Knellunnar. Ágóðinn var einnig búðarinnar sem fékk góða auglýsingu fyrir þau fínu föt sem þar fást.

11. mar. 2010 : Rauði krossinn heldur utan um ungt atvinnulaust fólk

Rauði krossinn er þessa dagana að hrinda af stað verkefni fyrir ungt fólk í atvinnuleit og hefur ráðið níu verkefnisstjóra í átta stöðugildi. Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða krossins og Vinnumálastofnunar undir heitinu Ungt fólk til athafna og á að tryggja sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur.

Árni G. Guðmundsson er einn verkefnisstjóranna en hann hefur aðsetur hjá Akranesdeild Rauða krossins. Hann segir aldursviðmiðun fyrir verkefni sem þetta vera 18-24 ára hjá félagsmálaráðuneytinu en það verði útvíkkað í þessu verkefni og reiknað með fólki á aldrinum 16-30 ára.

10. mar. 2010 : Hönnuðu og teiknuðu lukkumiða til styrktar Haítíbúum

Stór hluti krakkanna í yngri hópi ungmennastarfsins hjá Stöðvarfjarðardeild Rauða krossins kom saman í Heimalundi, húsnæði deildarinnar, til að safna fyrir þá sem eiga um sárt að binda á Haítí. Krakkarnir seldu kaffi og kökur og lukkumiða til stuðnings málefninu, og fengu auk þess allan ágóða af sölu Litlu Rauðakrossbúðarinnar þann daginn. 
 
Krakkarnir hafa verið afar áhugasöm um verkefnið og hönnuðu og teiknuðu til dæmis alla lukkumiðana sjálf. Þeir sem misstu af lukkumiðum á laugardag mega búast við heimsókn frá krökkunum næstu daga því þau ætla að ganga í hús og bjóða fólki þá til kaups. Síðan verður dregið úr seldum miðum í Heimalundi laugardaginn 20. mars.

25. feb. 2010 : Unglingar á flótta í Reykjanesbæ

Hlutverkaleikurinn Á flótta var haldinn á Keilissvæðinu á Miðnesheiðinni um síðustu helgi. Þátttakendur voru að vanda hópur ungs fólks sem var tilbúið að setja sig í fótspor flóttamanna í heilan sólahring og taka þeim áskorunum sem flóttamenn í heiminum þurfa gjarnan að glíma við í sínu daglega lífi.  Það er Ungmennahreyfing Rauða krossins sem á veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd leiksins.

Í upphafi fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þarnæst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er.

22. feb. 2010 : Námskeiðið Börn og umhverfi fyrir ungmenni fædd 1998 eða eldri

Námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið sex sinnum hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins í maí og júní. Námskeiðin eru fyrir ungmenni fædd á árinu 1998 og eldri. Námskeiðið verður einnig haldið víðar um landið og munu auglýsingar birtast á vefnum jafnóðum og þau eru ákveðin undir liðnum Á döfinni.

Kennsla skiptist á fjögur kvöld og fer fram í húsnæði Reykjavíkurdeildar, Laugavegi 120. 5. hæð, kl. 18-21.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

19. feb. 2010 : Hjálpa jafnöldrum sínum á Haítí

ÍSLENSK grunnskólabörn hafa brugðist sterkt við raunum Haíta eftir jarðskjálftana í byrjun janúar og hefur Rauði kross Íslands orðið var við aukningu í söfnunum af þeim sökum. Greinin birtist í Morgunblaðinu 19.02.2010.

17. feb. 2010 : Myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk 20 ára og yngri

Hafnarfjarðardeild Rauða krossins efnir til myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk 20 ára og yngra. Þátttaka er heimill öllum félögum í Ungmennahreyfingu Rauða krossins af öllu landinu, en ekkert mál er að skrá sig félaga á staðnum.

Fimmtudaginn 18. febrúar kl. 17:30 verður kynning á viðfangsefni samkeppnirnar sem eru grundvallarmarkmið Rauða krossins. Þann 25. febrúar kl. 17:30 kemur Gunnar B. Guðmundsson leikstjóri Áramótsins 2009 og Astrópíu og leiðbeinir þátttakendum um framkvæmd verkefnisins.

Þessar kynningar fara fram í Sjálfboðaliðamiðstöðinni Strandgötu 24. Skilafrestur myndbanda er 18. mars og verða úrslit kynnt í mars.
Með innsendum myndböndum þarf að fylgja nafn, heimili, kennitala, símanúmer og tölvupóstfang viðkomandi þátttakenda. 

Taktu þátt!!!!  Vegleg verðlaun!!!!!!

 

15. feb. 2010 : Ungmennastarf Borgarfjarðardeildar kynnir skyndihjálp

Í tilefni af 1-1-2 deginum þann 11.2. unnu Rauði krossinn í Borgarfirði og Neisti sameiginlega að kynningu í verslunarhúsnæði í Borgarnesi. Þar var Neisti með til sölu öryggisvörur fyrir heimili sem snúa að eldvörnum, kynnti sigurvegara í eldvarnargetraun og var með slökkviliðsbíl til sýningar sem vakti mikla lukku meðal yngri kynslóðarinnar.

Ungmennastarf Borgarfjarðardeildar Rauða krossins sá um að dreifa skyndihjálparbæklingnum ,,Ertu til þegar á reynir“  til almennings og það þótti vel við hæfi vegna þess að 1-1-2 dagurinn snýr einmitt að því að vekja almenning til umhugsunar um neyðarlínuna 1-1-2 og skyndihjálp.

Á myndinni eru þær Guðrún Hildur Hauksdóttir,  Erla Björk Kristjánsdóttir og Salvör Svava Gylfadóttir úr ungmennastarfinu en þær stóðu sig aldeilis vel við kynninguna.
 

10. feb. 2010 : Málþing, 18. febrúar: Sýnum hvað í okkur býr!

Í framhaldi af átaksverkefni síðasta árs þar sem leitast var við að hvetja annars vegar ungt fólk innan hreyfingarinnar að bjóða sig fram til stjórnarsetju og hins vegar deildir að gefa ungu fólki þetta tækifæri, höfum við ákveðið að halda annað málþing nú í vetur. Málþingið verður með öðru sniði en í fyrra en í þetta skipti verður lögð áhersla á hvað við getum lagt að mörkum til samfélagsins með því að setja okkur markmið og gera skriflegan samning við okkur sjálf um að taka þátt í verkefnum Rauða krossins.

10. feb. 2010 : Ungt fólk til athafna 2010

Tæplega 5000 manns á aldrinum 16-29 ára eru atvinnulaus á Íslandi í dag. Þar af er stærsti hluti hópsins á Suðvesturhorninu. Þannig er atvinnuleysishlutfall fólks á aldinrum 16-24 ára nú um 18%, sem er gífurlega hátt í samanburði við margar nágrannaþjóðir okkar. Þar að auki eru atvinnuleysishorfur ekki bjartar næstu mánuði. Rannsóknir hafa sýnt að afleiðingar langtímaatvinnuleysis eru alvarlegastar fyrir ungt fólk. Staða ungra atvinnulausra er því afar viðkvæm, atvinnuleysi til langframa getur, ef ekkert er að gert leitt til vanlíðanar og mögulega örorku.

10. feb. 2010 : Hefur þú áhuga á að taka þátt í nefndastarfi URKÍ?

Okkur vantar fólk til að taka að sér ýmis verkefni s.s. markaðs- og kynningarmál, verkefnastjórnun innanlands og alþjóðasamskipti. Einnig vantar okkur ritstjóra til að halda utan um nýja fréttabréfið okkar!

10. feb. 2010 : Þátttaka ungs fólks á aðalfundinum í Nairobi

Formaður URKÍ hélt til Nairobi í Kenýa, ásamt öðrum úr íslensku sendinefndinni, til að sitja á aðalfundi Rauða krossins og Rauða hálfsmánans í nóvember. Eftir langt ferðalag, tók við stíf fundardagskrá, en margvísleg áhugaverð málefni voru tekin fyrir á fundinum. Eitt aðalmál fundarins var stefna hreyfingarinnar til 2020, svokölluð „Strategy 2020“ sem samþykkt var eftir miklar umræður. Gaman verður að fylgjast með hvernig þessi nýja stefna verður innleidd á næstu árum. Einnig fóru fram kosningar og var nýr formaður alþjóðasambandsins kosinn eftir spennandi kosningabaráttu, en sá heitir Tadateru Kanoé og kemur frá Japan.
 

10. feb. 2010 : Hvaða málefni á URKÍ að leggja áherslu á á komandi árum?

Á komandi landsfundi URKÍ þann 24. Apríl er stefnt að því að leggja línurnar varðandi áherslur ungmennahreyfingarinnar á komandi misserum. Í því tilefni höfðum við hugsað okkur að skoða ákveðin málefni til hlítar en þau eru:
 

10. feb. 2010 : Fréttablað í tölvupósti

URKÍ finnst mikilvægt að bæta samskiptin við ungt fólk innan hreyfingarinnar svo sem flestir viti hvað er að gerast hjá okkur hverju sinni. Því höfum við ákveðið að senda út regluleg fréttabréf með tölvupósti til allra sjálfboðaliða sem tilheyra ungmennahreyfingunni, þ.e. eru undir 35 ára aldri. Með þessu, vonumst við til að ná betur til ykkar allra, sem sameiningartákn ungs fólks innan hreyfingarinnar.

5. feb. 2010 : Ný heimasíða www.aflotta.is

Verkefnið Á flótta hefur nú eignast heimasíðu þar sem hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um leikinn. Slóðin á síðuna er www.aflotta.is.

Næsti leikur fer fram á Keili svæðinu í Keflavík helgina 20.-21. febrúar og hægt er að skrá sig í leikinn hér

Á flótta er hlutverkaleikur þar sem þátttakendum gefst tækifæri á því að feta í fótspo flóttamanna. Leikurinn tekur einn sólarhing og á þeim tíma fá þátttakendur að upplfia aðstæður sem margir flótmenn lenda í.

Allir sem eru 13 ára og eldri geta tekið þátt í leiknum og er þátttökugjaldið 1.000.-

12. jan. 2010 : Ungmennastarfið fær góða heimsókn. Vilja gjarnan að Rauði kross Íslands taki upp búninga, en alls ekki marseringu!

Ungmennastarf Kjósarsýsludeildar fékk góða heimsókn á fyrsta fundi ársins.  Susan Yuen, 19 ára sjálfboðaliði Rauða krossins frá Hong Kong kom og sagði frá ungmennastarfinu þar. Umgjörð starfsins í Hong Kong er talsvert ólíkt því sem þekkist hér á landi og margt sem kom krökkunum á óvart.  

Ströng inntökuskilyrði eru inn í ungmennastarfið í Hong Kong, þar sem umsækjendur sitja námskeið og taka próf úr sögu Rauða krossins, grundvallarmarkmiðum og mannúðarstefnunni sem allir sjálfboðaliðar hafa að leiðarljósi í starfi sínu.  Rauði krossinn í Hong Kong er sá eini í heiminum sem marserar ennþá á fundum og þarf langar og strangar æfingar til að ná góðum tökum á marseringunni.

5. jan. 2010 : Rauði kross Íslands tekur þátt í samstarfi um mannréttindafræðslu í skólum, félags- og æskulýðsstarfi

Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Námsgagnastofnun hafa látið þýða og gefa út á íslensku bókina KOMPÁS en hún kom fyrst út hjá Evrópuráðinu árið 2002.