19. maí 2010 : Vorferð barna og unglinga

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Um 70 manna hópur mætti við Viðeyjarhöfn og hélt af stað á vit ævintýra eyjarinnar.

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir tók á móti hópnum og kynnti staðarhætti. Þar er margt forvitnilegt að sjá og vel hægt að eyða löngum tíma í að spóka sig í göngutúrum um þessa fallegu eyju. Þegar Guðlaug lauk sínu máli var komið að ratleikjum. Eldri krakkarnir spreyttu sig í skyndihjálp og þrautum tengdum henni en yngri krakkarnir reyndu á kunnáttu sína um Rauða krossinn, þar sem grundvallarmarkmiðin skipuðu stóran sess.

17. maí 2010 : Nemendur í Kársnesskóla styrkja Föt sem framlag

Í dag tók Kópavogsdeild Rauða krossins við góðu framlagi frá Kársnesskóla til verkefnisins Föt sem framlag við mikla athöfn en nemendur í lífsleikni í 9. bekk höfðu unnið að því að sauma og prjóna föt í allan vetur. Afraksturinn lét ekki á sér standa þar sem nemendurnir afhentu deildinni um 200 flíkur í heildina sem munu verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Pakkar með flíkum sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands. Hver pakki inniheldur prjónaða peysu, teppi, húfu, sokka og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum, taubleyjum, buxum og treyju.

10. maí 2010 : Viðtal við sjálfboðaliða Takts

Taktur er samstarfsverkefni Rauða kross Íslands og Vinnumálastofnunar sem gegnur út á að virkja ungt fólk í atvinnuleit. Um 100 manna öflugur hópur vinnur nú í margvíslegum verkefnum á vegum Rauða krossins, Árni Þór Theodórsson sem er 23 ára og útskrifaður úr kvikmyndagerð frá New York er einn þeirra.

Í fréttablaði Takts var Árni valinn sjálfboðaliði vikunnar, Árni varð fyrir valinu því hann er búinn að vera mjög virkur í Takti og tilbúinn að taka að sér aukaverkefni. En auk þess hefur hann gert kynningarmyndband um Konukot sem verður frumsýnt á aðalfundi Rauða krossins 15.maí. Við fengum Árna í smá yfirheyrslu.

Aldur og fyrri störf ?
Ég ólst upp í sveit rétt fyrir utan Húsavík þar til ég var orðinn 7 ára en þá fluttum við einmitt til Húsavíkur þar sem ég svo kláraði grunnskóla og byrjaði í framhaldsskóla. Þegar ég var 18 flutti ég svo frá Húsavík með kærustunni minni, og höfum við búið á mörgun stöðum síðan. Þar má nefna, Akureyri, Indland, New York, og Reykjavík. Ég kláraði nám í kvikmyndagerð í New York og er það svo gott sem allur minn námsferill. Síðan ég kláraði námið hef ég verið atvinnulaus, en þannig komst ég einmitt í samband við Rauða krossinn. Í dag bý ég í miðborg Reykjavíkur með kærustunni minni Kötu og hundinum mínum Símoni.
 

6. maí 2010 : Taktur - virkniverkefni fyrir ungt fólk stundar sjósund

Heilsuhópur Takts hélt til Nauthólsvíkur á dögunum og brá sér í sjósund. Taktur er verkefni fyrir ungt atvinnulaust fólk á höfuðborgarsvæðinu sem sprottið er upp úr verkefninu Ungt fólk til athafna sem Rauði kross Íslands, félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun settu á laggirnar til að tryggja sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur.  Auk hefðbundinna sjálfboðaverkefna eru nokkrir ný og vinnuhópar að störfum.

Ísleifur starfsmaður Nauthólsvíkur tók á móti hópnum og leiddi í allan sannleik um sjóböð og leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að. Það er t.d mælt með því að standa aðeins á bakkanum áður en vaðið er út í. Svo er galdurinn að labba hægt út í sjóinn og fara svo smátt og smátt með líkamann ofan í. Að þessu loknu er í lagi að taka smá sundsprett en mjög mikilvægt er að hlusta á líkamann og vera ekki of lengi ofan í. Forstöðumaður Nauthólsvíkur segir að margir tali um það að sjósund bæti hressi kæti og hafi góð áhrif á geðheilsu og að sumir séu hreinlega háðir sundinu. Í heilsuhópi Takts eru skráðir um 10 manns en einungis þrír þorðu að fara út í.

5. maí 2010 : Vetrarstarf Plússins

Á liðnum vetri hafa sjálfboðaliðahópar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir 16-24 ára, unnið að ýmsum verkefnum.

Sjálfboðaliðar hönnunarhóps leyfðu sköpunargáfunni að njóta sín og endurhönnuðu og saumuðu föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Afraksturinn voru hárskraut og klæðnaður sem var til sölu á handverksmörkuðum deildarinnar og í Rauða kross búðunum. Vörurnar vann hópurinn úr fatnaði sem fenginn var úr Fatasöfnunarstöð Rauða krossins.