24. ágú. 2010 : Mannúð og menning fyrir börnin

370 börn á aldrinum 7-12 ára sóttu sumarnámskeið Rauða krossins Mannúð og menning. Að þessu sinni voru þau haldin í Reykjavík, Kópavogi, Álftanesi, Garðabæ, Mosfellsbæ, Ísafirði og Þingeyri.
 
Námskeiðin byggja á fræðslu og leikjum sem miða að því að börnin tileinki sér mannúðarhugsjónir Rauða krossins og tengi þær við daglegt líf. Börnin fá fræðslu um starf Rauða krossins, skyndihjálp, fjölmenningu og umhverfisvernd. Námskeiðunum var skipt eftir tveimur aldurshópum, 7-9 ára og 10-12 ára. Gjaldfrjálst var á námskeiðin og boðið var upp hádegisverð. 

23. ágú. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Kópavogdeild í sumarbúðum í Finnlandi

Dagana 2.-8. ágúst fóru fjögur ungmenni fyrir hönd Rauða kross Íslands í sumarbúðirnar Herzi Camp en þær eru haldnar árlega í Finnlandi. Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, báðar 16 ára sjálfboðaliðar í Plúsnum, fóru frá Kópavogsdeild ásamt þeim Bjarna Haukssyni frá Suðurnesjadeild og Fanneyju Sumarliðadóttur frá Stykkishólmsdeild.

Sumarbúðirnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 16-29 ára, fötluðum sem ófötluðum og er markmið þeirra að auka víðsýni og færni fólks til að hjálpa einstaklingum með hamlanir. Um 45 manns dvöldu í búðunum frá fjórum löndum; Finnlandi, Íslandi, Egyptalandi og Kosovo.

13. ágú. 2010 : Hamagangur á sumarbúðum URKÍ í Alviðru

Þessa dagana eru hátt í 40 manns samankomnir á sumarbúðum Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Alviðru í Ölfusi. Þátttakendur eru unglingar á aldrinum 12-16 ára, víðs vegar af landinu. Leiðbeinendur eru sjálfboðaliðar URKÍ á aldrinum 18-30 ára.

Á búðunum er farið í fjölbreytta leiki jafnframt sem unnin eru verkefni sem tengjast mannréttindum og hjálparstarfi. Einnig er mikið lagt upp úr útivist, kvöldvökum og annarri skemmtun.

Myndirnar eru teknar fyrsta daginn þegar veðrið lék við þátttakendur. Skyndilega skall þó á manngert úrhelli í formi vatnsslags. Um kvöldið kom Birna Halldórsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins og fjallaði um hjálparstarfið á Haítí.

11. ágú. 2010 : Gömul gildi endurvakin á Gleðidögum

Um 70 börn á aldrinum 6-12 ára sóttu sumarnámskeiðin Gleðidaga- Hvað ungur nemur, gamall temur – sem haldin voru á vegum fjögurra deilda Rauða krossins, Kópavogsdeildar, Álftanesdeildar, Kjósarsýsludeildar og Klausturdeildar.

Námskeiðin voru haldin í samstarfi við Öldrunarráð Íslands og leiðbeinendur komnir af léttasta skeiðinu enda tilgangurinn með þeim að auka samskipti barna og eldra fólks og endurvekja gömul gildi. Börnin voru þátttakendur í leik og starfi með fullorðnum og öfluðu sér flóðleiks og þekkingar í gegnum samskiptin. Að auki var bætt við léttri skyndihjálparfræðslu.