29. sep. 2010 : Framhaldsskólanemar hvattir til að ganga til góðs

Framhaldsskólanemar um allt land eru þessa dagana að fá hvatningu til að ganga til góðs næstkomandi laugardag. Fulltrúar Rauða krossins hafa hitt og talað við nemendur í hádegishléum og tímum eins og lífsleikni, kynnt fyrir þeim markmið söfnunarinnar og einföldu skrefin sem þeir taka til að ganga til góðs. Nemendafélög framhaldsskóla eru einnig að hvetja félaga sína til að taka þátt í söfnuninni. Samband íslenskra framhaldsskólanema hvetur bæði aðildarfélög sín sem og alla framhaldsskólanema til að leggja söfnuninni lið.

Fanney Karlsdóttir, sjálfboðaliði Rauða krossins, hefur útbúið kynningarefni sem notað er til að kynna söfnunina í framhaldsskólum landsins. Fanney hefur einnig farið sjálf í nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu og kynnt söfnunina. -Viðbrögðin hafa verið góð og það er gaman að hvetja nemendur til þess að láta gott af sér leiða með þessum hætti, segir Fanney. Ljóst er að ef fjöldi framhaldsskólanema tekur þátt í söfnuninni verður það mikilvægur liðsafli fyrir Rauða krossinn sem þarf um 3.000 sjálfboðaliða til að ná að banka upp á hjá öllum heimilum í landinu.

21. sep. 2010 : Líflegt starf í Takti

Ungt fólk til athafna er samstarfsverkefni Rauða krossins og vinnumálastofnunar. Níu deildir Rauða krossins eru aðilar að verkefninu; Reykjavíkur-, Hafnarfjarðar-, Garðabæjar-, Álftanes-, Kjósarsýslu-, Kópavogs-, Árnesinga-, Akranes-, og Suðurnesjadeild. Markmið verkefnisins er að þátttakendur fræðist um starfsemi Rauða krossins, séu virk á meðan á atvinnuleit stendur, styrkist í atvinnuleitinni og séu þannig betur í stakk búin til að sækja um nám eða vinnu.  

Innan verkefnisins er Taktur, samstarfsverkefni deildanna á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni Takts fór vel af stað í haust og völdu um 50 manns Rauða krossinn. Lögð er áhersla á að fá innflytjendur til liðs við verkefnið með það að markmiði að þeir læri betri íslensku, vinni í ferilskrárgerð og atvinnuleit meðfram því að sinna sjálfboðaliðastarfi hjá Rauða krossinum. Það er líflegt meðal hópsins þegar talað er á hinum ýmsu tungumálum. Íslenskuhópurinn sem Páll í Hafnarfjarðardeild heldur utan um er svo rétt að fara af stað.

18. sep. 2010 : Fjölmenning eða einsleitni og einangrun?

Grein birt í Morgunblaðinu laugardaginn 18. september 2010

Í febrúar árið 2008 birtist í blaði þessu grein eftir tvo af þáverandi stjórnarmönnum Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands (URKÍ).

Greinin bar fyrirsögnina "Siðferðisboðskapur óskast" og fjallaði um fordóma Íslendinga gagnvart innflytjendum enda höfðu íslensk nýnasistafélög og rasískir klúbbar þá mikið verið í umræðunni. Nú, tveimur og hálfu ári síðar virðist því miður sem fátt hafi breyst í þessum málum. Á sama tíma og Íslendingar sameinast á bakvið ein hjúskaparlög auk þess að fussa og sveia yfir fordómum lítils hóps nágranna okkar í Færeyjum bendir margt til þess að við eigum nokkuð í land með að uppræta óforsvaranlega og tilefnislausa fordóma hér heima fyrir.

Fordómar gagnvart innflytjendum hafa verið til umræðu undanfarna daga en umræðan opnaðist þegar fréttir bárust af feðgum sem flúðu land. Um var að ræða íslenska ríkisborgara af erlendum uppruna sem yfirgáfu Ísland í lögreglufylgd vegna ofsókna.

Margir spyrja sig, er til einföld lausn á fordómum? ...

6. sep. 2010 : Mórall - Vetrarstarfið hafið

Mórall er hópur krakka á aldrinum 13-16 ára sem hittist alla mánudaga klukkan 20 í húsnæði Kjósarsýsludeildar Rauða krossins að Þverholti 7 í Mosfellsbæ.

Krakkarnir fræðast um Rauða krossinn, vinna verkefni tengd hugsjónum og starfi Rauða krossins um allan heim, fara í ferðir og hitta aðrar ungmennadeildir. Það kostar ekkert að vera með. Komdu og kíktu ef þú þorir....

Dagskráin fram að jólum er fjölbreytt og má þar nefna fótboltamót, umhverfisfræðslu, heimsókn í aðra deild, skyndihjálparfræðsla, fataflokkun, markað, brjóstsykurgerð og fleira.

1. sep. 2010 : SJÁ 102 í Flensborgarskóla

Áfanginn SJÁ102 er að fara í gang þessa haustönnina í Flensborgarskóla. Nemendur geta tekið þátt í sjálfboðnu starfi hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins, farið á námskeið og lagt sitt af mörkum í fjáröflunarverkefni og fengið 2 einingar fyrir.

Meðal verkefna í boði eru: Heimsóknavinir, störf í Læk - athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, ungmennastarf og starf í Rauða krossbúðinni. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja annað námskeið fyrir sjálfboðaliða. Einnig munu nemendur vinna kynningar- og fjáröflunarverkefni. Nemendur skrifa dagbók um vinnu sína. Áfanginn byggir á hugmyndum um þátttökunám (service learning) og er próflaus.