Rauði krossinn heldur utan um ungt atvinnulaust fólk

11. mar. 2010

Rauði krossinn er þessa dagana að hrinda af stað verkefni fyrir ungt fólk í atvinnuleit og hefur ráðið níu verkefnisstjóra í átta stöðugildi. Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða krossins og Vinnumálastofnunar undir heitinu Ungt fólk til athafna og á að tryggja sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur.

Árni G. Guðmundsson er einn verkefnisstjóranna en hann hefur aðsetur hjá Akranesdeild Rauða krossins. Hann segir aldursviðmiðun fyrir verkefni sem þetta vera 18-24 ára hjá félagsmálaráðuneytinu en það verði útvíkkað í þessu verkefni og reiknað með fólki á aldrinum 16-30 ára.

Anna Lára Steindal hjá Rauða kross deildinni á Akranesi segir mikilvægt að ungt fólk sé virkt í samfélaginu. Verið er að gera aukna kröfu um virkni fólks á atvinnuleysisskrá og með þátttöku í verkefni sem þessu er ungu fólki tryggðar atvinnuleysisbætur áfram. „Það er víða þekkt að fólki sem er á atvinnuleysisskrá sé boðið að taka þátt í sjálfboðastarfi Rauða krossins. Við erum með margvísleg sjálfboðaverkefni hér á Akranesi sem unga fólkið okkar gæti tekið þátt í, en fyrst og fremst er ætlunin með þessu verkefni að virkja þau á þeirra eigin áhugasviði og skapa þeim grundvöll sem hægt er að byggja á til framtíðar.“
 
Frumkvöðlasmiðju Vinnumálastofnunar á Akranesi er nú lokið og því óttast margir að aðgerðaleysi taki við hjá ungu atvinnulausu fólki í kjölfarið en 70 manns fóru í gegnum námskeiðin þar. Akraneskaupstaður tekur þátt í þessu verkefni með Rauða krossinum og Vinnumálastofnun. Framlag Vinnumálastofnunar verður í formi ráðgjafar og námskeiðahalds. Akraneskaupstaður hefur lagt tvær milljónir króna í verkefnið og Rauði krossinn leggur til starfsmanninn næstu níu mánuði samkvæmt samningi við Vinnumálastofnun og heldur utan um verkefnið.