Plúsinn styrkir börn á Haítí

18. mar. 2010

Hulda, Unnur og Dagbjört fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands og Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs um 60 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem hópurinn hélt 6. mars síðastliðinn. Peningurinn verður nýttur til að aðstoða börn á Haítí sem eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið 12. janúar.

Kristján og Þórir sögðu að fjárhæðin myndi nýtast afar vel enda væri mikil þörf á áframhaldandi aðstoð í landinu. Haítí var bágstatt ríki fyrir skjálftann en núna væri uppbyggingarstarf í gangi og enn mikil þörf á aðstoð.

Á fatamarkaðinum, sem haldinn var í Molanum ungmennahúsi Kópavogs, kom fjöldi fólks og keypti notuð föt á 500 og 1000 krónur til styrktar þessu málefni. Þar mátti einnig prútta niður verð og skapaðist þarna vettvangur fyrir fólk til að gera mjög góð kaup.

Plúsinn er sérhannaður vettvangur fyrir fólk á aldrinum 16–24  ára til þess að taka þátt í sjálfboðnu starfi og hafa áhrif á samfélagið sitt með ýmsum hætti, með markmið og hugsjónir Rauða krossins að leiðarljósi. Ýmsir hópar eru starfsræktir innan Plússins, líkt og stýrihópur, fræðsluhópur og hönnunarhópur. Allar nánari upplýsingar má nálgast í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.