Vetrarstarf Plússins

5. maí 2010

Á liðnum vetri hafa sjálfboðaliðahópar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir 16-24 ára, unnið að ýmsum verkefnum.

Sjálfboðaliðar hönnunarhóps leyfðu sköpunargáfunni að njóta sín og endurhönnuðu og saumuðu föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Afraksturinn voru hárskraut og klæðnaður sem var til sölu á handverksmörkuðum deildarinnar og í Rauða kross búðunum. Vörurnar vann hópurinn úr fatnaði sem fenginn var úr Fatasöfnunarstöð Rauða krossins.

Fræðsluhópur sinnti fræðslu og forvörnum fyrir jafningja og fór meðal annars inn í alla lífsleiknitíma Menntaskólans í Kópavogi með það að markmiði að vekja nemendur til umhugsunar um HIV/AIDS. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks um alnæmissmit. Fræðsluhópurinn vann það verkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.

Hluti stýrihóps á góðri stundu.
Sjálfboðaliðar vinna að uppsetningu fatamarkaðar.

Námsvinahópur hitti jafningja í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs, þar sem litlir hópar hittust reglulega og lærðu saman. Þar gátu þátttakendur bæði þegið aðstoð frá sjálfboðaliðum við námið, auk þess sem hóparnir eru kjörið tækifæri fyrir ungt fólk af ýmsum uppruna til þess að kynnast.

Stýrihópur hefur unnið að ýmsum málefnum og viðburðum líkt og skiptidótamarkaði fyrir jólin og fatamarkaði til styrktar bágstöddum börnum á Haítí. Auk þess hafa sjálfboðaliðar innan Plússins tekið þátt í starfi Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands – URKÍ – þar sem þeir eiga nú meðal annars einn fulltrúa í varastjórn.