Taktur - virkniverkefni fyrir ungt fólk stundar sjósund

6. maí 2010

Heilsuhópur Takts hélt til Nauthólsvíkur á dögunum og brá sér í sjósund. Taktur er verkefni fyrir ungt atvinnulaust fólk á höfuðborgarsvæðinu sem sprottið er upp úr verkefninu Ungt fólk til athafna sem Rauði kross Íslands, félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun settu á laggirnar til að tryggja sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur.  Auk hefðbundinna sjálfboðaverkefna eru nokkrir ný og vinnuhópar að störfum.

Ísleifur starfsmaður Nauthólsvíkur tók á móti hópnum og leiddi í allan sannleik um sjóböð og leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að. Það er t.d mælt með því að standa aðeins á bakkanum áður en vaðið er út í. Svo er galdurinn að labba hægt út í sjóinn og fara svo smátt og smátt með líkamann ofan í. Að þessu loknu er í lagi að taka smá sundsprett en mjög mikilvægt er að hlusta á líkamann og vera ekki of lengi ofan í. Forstöðumaður Nauthólsvíkur segir að margir tali um það að sjósund bæti, hressi, kæti og hafi góð áhrif á geðheilsu og að sumir séu hreinlega háðir sundinu. Í heilsuhópi Takts eru skráðir um 10 manns en einungis þrír þorðu að fara út í.

Heilsuhópur Takts hittist vikulega á miðvikudögum klukkan ellefu og allir eru sammála um að sjósund bætir, hressir og kætir auk þess að vera nauðsynleg viðbót við hefðbundin Rauða kross störf þar sem sjósundið sé svo gott fyrir hópandann.

Ungt fólk til athafna hefur þann tilgang að stuðla að virkni og starfshæfni ungra atvinnuleitenda og sporna gegn erfiðum félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum sem oft fylgja langvarandi atvinnuleysi, auk þess að kynna fyrir fleirum þau fjölmörgu störf og verkefni sem Rauði krossinn sinnir í samfélaginu.