Viðtal við sjálfboðaliða Takts

10. maí 2010

Taktur er samstarfsverkefni Rauða kross Íslands og Vinnumálastofnunar sem gegnur út á að virkja ungt fólk í atvinnuleit. Um 100 manna öflugur hópur vinnur nú í margvíslegum verkefnum á vegum Rauða krossins, Árni Þór Theodórsson sem er 23 ára og útskrifaður úr kvikmyndagerð frá New York er einn þeirra.

Í fréttablaði Takts var Árni valinn sjálfboðaliði vikunnar, Árni varð fyrir valinu því hann er búinn að vera mjög virkur í Takti og tilbúinn að taka að sér aukaverkefni. En auk þess hefur hann gert kynningarmyndband um Konukot sem verður frumsýnt á aðalfundi Rauða krossins 15.maí. Við fengum Árna í smá yfirheyrslu.

Aldur og fyrri störf ?
Ég ólst upp í sveit rétt fyrir utan Húsavík þar til ég var orðinn 7 ára en þá fluttum við einmitt til Húsavíkur þar sem ég svo kláraði grunnskóla og byrjaði í framhaldsskóla. Þegar ég var 18 flutti ég svo frá Húsavík með kærustunni minni, og höfum við búið á mörgun stöðum síðan. Þar má nefna, Akureyri, Indland, New York, og Reykjavík. Ég kláraði nám í kvikmyndagerð í New York og er það svo gott sem allur minn námsferill. Síðan ég kláraði námið hef ég verið atvinnulaus, en þannig komst ég einmitt í samband við Rauða krossinn. Í dag bý ég í miðborg Reykjavíkur með kærustunni minni Kötu og hundinum mínum Símoni.

Einhver sérstök áhugamál?
Ég hef náttúrulega mikinn áhuga á kvikmyndum og kvikmyndagerð, en hef líka verið í músík og hlusta mikið á allskonar tónlist.

Afhverju Rauði krossinn?
Rauði krossinn lá beinast við í mínu vali á „virkni" innan Vinnumálastofnunnar. Mér fannst mörg spennandi verkefni kynnt innan Rauða krossins og fannst líka gott að geta látið eitthvað gott af mér leiða í atvinnuleysinu. Enda hefur það reynst mér mjög vel.

Hvaða sjálfboðaliðastörfum hefurðu sinnt?
Ég hef t.d. verið að vinna að kynningarmyndbandi fyrir Konunot, sem hefur verið mitt aðal verkefni, síðan fór ég undir Eyjafjöll til að hreinsa ösku og bjó til kakó fyrir gesti og gangandi á 1 maí.

Hvaða tómstundastarfi innan Takts hefurðu sinnt?
Ég fór í sjósund með heilsuhópi sem er mjög virkur og það var mjög gaman og kalt. Fer pottþétt aftur.

Hvert er þitt aðalverkefni, út á hvað gengur það og hvenær telurðu að því ljúki?
Mitt aðalverkefni hefur verið að gera myndband fyrir Konukot og svo verða fleiri kynningarmyndbönd unnin, Konukotsmyndbandið ætti að verða búið um miðjan maí, en vonandi taka önnur verkefni skjótt við.

Hvað telur þú að þú hafir grætt á því að starfa innan Rauða krossins og er eitthvað sem þú telur að þú takir með þér þaðan?
Rauði krossinn hefur hjálpað mér í atvinnuleysinu við að halda mér í rútínu og að hafa eitthvað fyrir stafni. Sem á algjörlega eftir að hjálpa mér að komast aftur út á atvinnumarkaðinn þegar að því kemur. Að vinna í þessum myndböndum hefur hjálpað mér að halda mér við í kvikmyndagerðinni, síðan kynnist maður góðu fólki og er í góðum félgasskap.

Hvað ertu með á prjónunum sem næsta verkefni fyrir Rauða krossinn?
Næst fer ég í mjög spennandi verkefni þ.e geri myndband eða mynd um sjálfboðaliða sem hafa farið til Haítí.