Gömul gildi endurvakin á Gleðidögum

11. ágú. 2010

Um 70 börn á aldrinum 6-12 ára sóttu sumarnámskeiðin Gleðidaga- Hvað ungur nemur, gamall temur – sem haldin voru á vegum fjögurra deilda Rauða krossins, Kópavogsdeildar, Álftanesdeildar, Kjósarsýsludeildar og Klausturdeildar.

Námskeiðin voru haldin í samstarfi við Öldrunarráð Íslands og leiðbeinendur komnir af léttasta skeiðinu enda tilgangurinn með þeim að auka samskipti barna og eldra fólks og endurvekja gömul gildi. Börnin voru þátttakendur í leik og starfi með fullorðnum og öfluðu sér flóðleiks og þekkingar í gegnum samskiptin. Að auki var bætt við léttri skyndihjálparfræðslu.

Námskeiðin fjögur voru hvert með sína sérstöðu og mótuðust af umhverfinu og leiðbeinendum. Sem dæmi má nefna að Kópavogsdeildin bauð upp á heimsókn á Sunnuhlíð sem er hjúkrunar – og dvalarheimili aldraðra, hjá Klausturdeildinni prjónuðu krakkarnir vinabönd sem þau síðan sendu til Rauða krossins í Gambíu sem er vinadeild deilda á Suðurlandi/Suðurnesjum. Börnin á Álftanesi voru svo heppin að fá móttöku hjá forsetanum Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum og í Mosfellsbænum fengu börnin fræðslu um náttúruna. 

Námskeið sem þessi voru haldin í fyrsta sinn fyrir ári síðan. Ákveðið var að endurtaka þau í sumar, ekki síst með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar „Hvar þrengir að?“ sem sýndi bága stöðu ákveðins hóps barna á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Kennt var spilið Alkort, sem var spilað á „miðöldum".
Krakkarnir á pósthúsinu þar sem þau eru að senda vinaböndin til Gambíu.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti tók á móti börnunum á Bessastöðum.
Skyndihjálparfræðsla undir leiðsögn Egils Bjarnasonar.