Sjálfboðaliðar úr Kópavogdeild í sumarbúðum í Finnlandi

23. ágú. 2010

Dagana 2.-8. ágúst fóru fjögur ungmenni fyrir hönd Rauða kross Íslands í sumarbúðirnar Herzi Camp en þær eru haldnar árlega í Finnlandi. Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, báðar 16 ára sjálfboðaliðar í Plúsnum, fóru frá Kópavogsdeild ásamt þeim Bjarna Haukssyni frá Suðurnesjadeild og Fanneyju Sumarliðadóttur frá Stykkishólmsdeild.

Sumarbúðirnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 16-29 ára, fötluðum sem ófötluðum og er markmið þeirra að auka víðsýni og færni fólks til að hjálpa einstaklingum með hamlanir. Um 45 manns dvöldu í búðunum frá fjórum löndum; Finnlandi, Íslandi, Egyptalandi og Kosovo.

Að sögn Finnlandsfaranna var ferðin frábær í alla staði og sneru allir heim ánægðir og með nýja reynslu í farteskinu. Aðspurðar sögðust Hulda Hvönn og Dagbjört hafa öðlast allt aðra sýn á fólk með hamlanir og þær áskoranir sem það þarf að kljást við á hverjum degi. Auk þess fengu þær innsýn í aðstæður hamlaðra um heim allan og sögðu að það hefði margt komið á óvart í þeim efnum þar sem þær séu svo mismundandi eftir heimshornum.

Hulda Hvönn og Dagbjört komu því tilbaka fróðari um ýmis málefni, kynntust fólki héðan og þaðan og vonast auðvitað eftir að fá boð um að koma aftur á næsta ári.