Líflegt starf í Takti

21. sep. 2010

Ungt fólk til athafna er samstarfsverkefni Rauða krossins og vinnumálastofnunar. Níu deildir Rauða krossins eru aðilar að verkefninu; Reykjavíkur-, Hafnarfjarðar-, Garðabæjar-, Álftanes-, Kjósarsýslu-, Kópavogs-, Árnesinga-, Akranes-, og Suðurnesjadeild. Markmið verkefnisins er að þátttakendur fræðist um starfsemi Rauða krossins, séu virk á meðan á atvinnuleit stendur, styrkist í atvinnuleitinni og séu þannig betur í stakk búin til að sækja um nám eða vinnu.  

Innan verkefnisins er Taktur, samstarfsverkefni deildanna á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni Takts fór vel af stað í haust og völdu um 50 manns Rauða krossinn. Lögð er áhersla á að fá innflytjendur til liðs við verkefnið með það að markmiði að þeir læri betri íslensku, vinni í ferilskrárgerð og atvinnuleit meðfram því að sinna sjálfboðaliðastarfi hjá Rauða krossinum. Það er líflegt meðal hópsins þegar talað er á hinum ýmsu tungumálum. Íslenskuhópurinn sem Páll í Hafnarfjarðardeild heldur utan um er svo rétt að fara af stað.

Eldri sjálfboðaliðarnir taka vel á móti nýju fólki og nú er verið að vinna að því að halda fjáröflunarmarkað í Rauðakrosshúsinu. Markhópurinn er ungt fólk og ágóðinn eyrnamerktur einhverju Rauða kross verkefni sem eftir er að ákveða hvað verður.

Í sumar var matreiðslukennsla á miðvikdögum sem mæltist mjög vel fyrir. Matreiðslukennslan fer þannig fram að kennt er að matreiða einfalda og ódýra rétti og fá svo allir heita máltíð í hádeginu.  Í vetur verður kennslan á fimmtudögum.

Verkefnastjórar Takts hlakka til komandi vetrar og eru ánægðir með þann árangur sem hefur náðst hingað til. Þátttakendur í Takti auka möguleika sína á að fá vinnu eftir þá reynslu sem þeir hljóta hjá Rauða krossinum.