Framhaldsskólanemar hvattir til að ganga til góðs

29. sep. 2010

Framhaldsskólanemar um allt land eru þessa dagana að fá hvatningu til að ganga til góðs næstkomandi laugardag. Fulltrúar Rauða krossins hafa hitt og talað við nemendur í hádegishléum og tímum eins og lífsleikni, kynnt fyrir þeim markmið söfnunarinnar og einföldu skrefin sem þeir taka til að ganga til góðs. Nemendafélög framhaldsskóla eru einnig að hvetja félaga sína til að taka þátt í söfnuninni. Samband íslenskra framhaldsskólanema hvetur bæði aðildarfélög sín sem og alla framhaldsskólanema til að leggja söfnuninni lið.

Fanney Karlsdóttir, sjálfboðaliði Rauða krossins, hefur útbúið kynningarefni sem notað er til að kynna söfnunina í framhaldsskólum landsins. Fanney hefur einnig farið sjálf í nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu og kynnt söfnunina. -Viðbrögðin hafa verið góð og það er gaman að hvetja nemendur til þess að láta gott af sér leiða með þessum hætti, segir Fanney. Ljóst er að ef fjöldi framhaldsskólanema tekur þátt í söfnuninni verður það mikilvægur liðsafli fyrir Rauða krossinn sem þarf um 3.000 sjálfboðaliða til að ná að banka upp á hjá öllum heimilum í landinu.

 

 

 
Fanney Karlsdóttir, sjálfboðaliði, kynnti Göngum til góðs í lífsleiknitíma hjá Lárusi H. Bjarnasyni, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð.