Ungt fólk til athafna - fyrir unga fólkið og framtíðina!

Hilmar Bergmann verkefnisstjóra í Kjósarsýsludeild Rauða krossins

19. jan. 2011

Með átakinu Ungt fólk til athafna (UFTA) sem ýtt var úr vör af félags- og tryggingamálaráðuneytinu fyrri part síðasta árs er markmiðið að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur á aldrinum 16-29 ára verður atvinnulaus þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verkefnum. Með átakinu er verið að gefa ungum atvinnuleitendum möguleika á að koma sér af stað í námi, öðlast starfsréttindi eða kynnast nýjum starfsvettvangi, sér að kostnaðarlausu.

Eitt af þessum verðugu verkefnum er þátttaka í sjálfboðaliðastörfum innan Rauða kross Íslands á meðan á atvinnuleitinni stendur. Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða kross Íslands og Vinnumálastofnunar, byggt á samstarfssamningi sem undirritaður var þ. 4. febrúar 2010 og framlengdur um síðustu áramót. Samningnum var ætlað að tryggja sjálfboðastörf, fyrir allt að 180 atvinnuleitendur á landsvísu og raunin varð að rúmlega tvöfalt fleiri komu til Rauða krossins á grundvelli samningsins á síðasta ári. Af öllum þessum fjölda enduðu ótrúlega margir í launuðum störfum.

Verkefnið á Reykjavíkursvæðinu fékk fyrst í stað aðsetur í Rauðakrosshúsi Reykjavíkur í Borgartúni 25 sem þá var rekið af landsskrifstofu Rauða krossins, en Reykjavíkurdeild yfirtók rekstur hússins í ágúst á síðasta ári.

Samhliða þessari breytingu á rekstri Rauðakrosshússins var rekstur annarra Rauðakrosshúsa á Stór Reykjavíkursvæðinu einnig efldur með það að markmiði að færa þjónustuna til fólksins, þannig að fólk geti fengið samastað hjá Rauða krossins í sínu bæjarfélagi. Þá var opinber opnunartími Rauðakrosshússins í Mosfellsbæ, sem er að Þverholti 7, stóraukinn. Komið hefur upp sú hugmynd að vera með opið hús einu sinni í viku á Kjalarnesi og mega þeir sem áhuga hafa á því gjarnan hafa samband við Kjósarsýsludeild Rauða krossins. Allir eru velkomnir í Rauðakrosshúsið í Mosfellsbæ að Þverholti 7.

Með eflingu Rauðakrosshúsanna og auknum fjölda ungmenna í UFTA, skapaðist einnig grundvöllur fyrir því að bjóða ungmennunum í verkefninu að velja sér staðsetningu með tilliti til búsetu. Þannig hafa ungmenni af Kjalarnesi, úr Kjós, Mosfellsbæ og austurhluta Reykjavíkur sótt námskeið og fræðslu í UFTA verkefninu í Rauðakrosshúsinu í Mosfellsbæ.

Með auknum fjölda ungmenna í verkefninu skapaðist einnig þörfin fyrir meiri fjölbreytni þar sem þeir sem velja sér Rauða krossinn sem úrræði þurfa að sinna ákveðinni mætingaskyldu til að halda bótum og takmörk eru fyrir því hversu mörgum er hægt að finna sjálfboðaliðastörf við hæfi. Áherslan hefur því verið aukin á uppbyggjandi fyrirlestra, aðstoð við atvinnuleit og starfsþjálfun.

Í öllu þessu getur bæjarfélagið þ.e. sveitarfélagið, fyrirtækin og ekki síst fólkið innan sveitarfélagsins veitt ómetanlega aðstoð.

Ég vil því hvetja alla sem kunna að vera gjaldgengir í verkefnið UFTA eða vita af einhverjum sem þannig er ástatt um að hafa samband í síma 564-6035 eða koma við í Rauðakrosshúsinu í Mosfellsbæ að Þverholti 7. Einnig alla atvinnurekendur sem kunna að óska eftir ungum starfsmönnum eða geta boðið upp á starfsþjálfun fyrir ungmennin.

Kær nýárskveðja,
Hilmar Bergmann, verkefnastjóri – Taktur, Kjósarsýsludeild Rauða krossins.