Föt sem framlag í ungmennastarfinu

2. mar. 2011

Í ungmennastarfi Hafnarfjarðardeildar taka krakkarnir sér ýmislegt fyrir hendur. Nýverið fræddust þau um verkefni Rauða krossins, Föt sem framlag þar sem sjálfboðaliðar á öllum aldri hanna, prjóna og sauma fatnað. Þar eru búnar til peysur, húfur, buxur, teppi, sokkar og vettlingar. Með varningnum eru búnir til ungbarnapakkar fyrri börn 0-12 mánaða sem sendir eru til þróunar- og neyðaraðstoðar erlendis t.d til Malaví og Gambíu sem og Hvíta Rússlands. Krakkarnir  horfðu á myndband um verkefnið, undirbúning og afhendingu ungbarnapakkanna í Hvíta Rússlandi.

Og börnin létu ekki á sér standa og tóku í prjónana til þess að framleiða eitthvað sem gæti komið sér vel í pökkunum.

URKÍ-H félagar hittast í þremur hópum einu sinni í viku. Yngsti hópurinn, 10-12 ára á miðvikudögum kl. 16:30-18:00, 13 ára og eldri á fimmtudögum kl. 17:30-19:00 og 16 ára og eldri á fimmtudögum kl. 19-21.

Hóparnir hittast í Sjálfboðamiðstöðinni að Strandgötu 24 og gera ýmislegt skemmtilegt s.s. halda spilakvöld, vídeókvöld, fræðast um mannúðarmál og framandi menningarheima, vinna í fataflokkun, safna fyrir hjálparstarfið og margt fleira.

Helstu verkefni og áherslur í starfi URKÍ-H

Byggjum betra samfélag: vitundarvakning geng fordómum og mismunun í samfélaginu.
Fatasöfnun: kynnast þessu verkefni Rauða krossins.
Ferðalög: förum a.m.k. í eitt ferðalag á ári auk þess sem ýmist er boðið uppá alþjóðlegar sumarbúðir eða landsmót á sumrin.
Fjáraflanir: leggjum okkar af mörkum til að safna pening til verkefna Rauða krossins jafnt innanlands sem utan
Hlutverkaleikurinn „Á Flótta“: þar sem þátttakendur fá að kynnast veruleika flóttamanna.
Vegabréfaverkefni: félagar í URKÍ-H hafa farið á „hugarflug“ þegar góðir gestir hafa komið í heimsókn og kynnt menningu og siði annarra þjóða og starf Rauða krossins eða Rauða hálfmánans í sínu landi. Til gamans er hugarflugið vottað í sérstakt vegabréf.

Þú getur skráð þig í URKÍ-H með því að hringja í síma 565-1222 eða senda póst á [email protected] eða mæta á þeim tíma sem er hist.