Rauði krossinn naut góðvildar leikskólabarnanna á Brákarborg á Góðverkadögum

7. mar. 2011

Þau eru umhyggjusöm börnin á leikskólanum Brákarborg. Því fékk Rauði krossinn að kynnast þegar þau tóku þátt í Góðverkadögum skátahreyfingarinnar sem haldnir voru í síðasta mánuði. Börnin komu færandi hendi til Rauða krossins í dag og afhentu fatnað og leikföng sem þau söfnuðu og vilja að bágstödd börn njóti.

Börnin á Brákarborg eru ekki alveg ókunnug Rauða krossinum því fingurbrúðan Hjálpfús lítur reglulega til þeirra og segir þeim frá öllu því áhugaverða sem Rauði krossinn er að gera. Krakkarnir eiga líka DVD myndina um hann Hjálpfús frá því hann var margt skemmtilegt að bralla í Stundinni okkar.

„Krakkarnir voru svo áhugasamir á Góðverkadögunum og sáu hvað góðverk og umhyggja skila sér til baka. Hjálpfús kom í heimsókn og sagði frá stelpu í Rúanda sem býr við verri kjör en börnin á Íslandi en er ekki síður hamingjusöm og hann sagði líka frá hjálparstörfum,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir deildarstjóri á elstu deild Brákarborgar.

Markmið barnanna með þátttöku í Góðverkadögunum var að vekja landsmenn til umhugsunar og hvetja þá til þess að láta gott af sér leiða, sýna náungakærleik, vináttu, hjálpa öðrum og gera góðverk.

Rauði krossinn kann þeim bestu þakkir fyrir hugulsemina.

Hægt er að sjá myndband frá heimsókninni á YouTube:

Örn Ragnarsson í Fatasöfnun sagði krökkunum frá því hvert fötin fara og gaf þeim svo poka sem þau geta farið með heim og notað þegar verið er að taka til í fataskápunum.
Hjálpfús lék á alls oddi, gaf börnun kex og safa og kvaddi svo kurteislega þegar þau fóru.