Ungir heimsóknavinir

31. mar. 2011

Ungir heimsóknavinir er verkefni sem Kjósarsýsludeild Rauða krossins vinnur í samstarfi við Lágafellsskóla, Varmárskóla og dvalarheimilið Hlaðhamra. Sjálfboðaliðil deildarinnar sækir krakkana í skólann og fylgir þeim á Hlaðhamra þar sem þau fá að skoða aðstöðuna og spjalla við heimilismenn. 

Á dögunum fóru sex krakkar úr sjöunda bekk Lágafellsskóla í heimsókn á Hlaðhamra. Ekkert þeirra hafði komið þangað áður og kom það þeim mjög á óvart hve margt spennandi var þar í boði. Glervinnsla var í fullum gangi, en það var ekkert síðra að skoða mannlausan líkamsræktarsalinn og bókbandsherbergið.  

Krakkarnir fengu góðar viðtökur og ófá bros frá heimilismönnum á leið sinni um gangana. Þau spjölluðu heilmikið við Klöru Klængsdóttur sem kenndi í Varmárskóla hér á árum áður og Viggó sem hefur búið í Mosfellsbæ í 50 ár. Viggó ólst upp á Tálknafirði og hafði frá mörgu að segja þaðan.

Næst eru það krakkar úr Varmárskóla sem fara í sína fyrstu heimsókn.

Fleiri myndir má finna á Facebook síðu deildarinnar:  www.facebook.com/RKIKjos.