Tælensk börn taka þátt í barnastarfi á Ísafirði

23. des. 2008

Ísafjarðardeild Rauða krossins hefur haldið uppi barnastarfi í vetur. Börnin sem sækja barnastarfið eru öll frá Tælandi og hittast á þriðjudögum milli klukkan 16 og 19. Á meðan stunda mæður þeirra nám í landnemaskólanum í Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Litlu jólin voru haldin hátíðleg við mikinn fögnuð barnanna. Sungin voru jólalög, allir fengu jólapakka og bragðað var á smákökum. Mæðurnar litu við á fagnaðinum og tóku undir í jólalögunum. Lagið „Ég sá mömmu kyssa jólasvein” vakti mikinn fögnuð enda höfðu mæðurnar æft sig af kappi við að syngja jólasöngva í landnemanáminu.