Sumarnámskeið fyrir börn

19. apr. 2011

Rauði krossinn stendur fyrir fjölbreyttum sumarnámskeiðum fyrir börn eins og undanfarin sumur. Um er að ræða námskeiðin Börn og umhverfi, Mannúð og menning og Gleðidaga. 

Börn og umhverfi er námskeið fyrir börn fædd 1999 eða fyrr. Farið er í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.
Sjá nánar hér.

Mannúð og menning er námskeið fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Lögð er áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendur fræðast um Rauða kross starfið, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið. Meðal efnis á námskeiðinu er; undirstöðuatriði skyndihjálpar, umhverfismál, skapandi leikir, saga og starf Rauða krossins, fjölmenningarlegt samfélag og uppskeruhátíð. Reykjavíkurdeild og Kjósarsýsludeild eru komnar með námskeiðið á dagskrá hjá sér og fleiri deildir munu bætast við á næstunni.
Sjá nánar hér.

Gleðidagar eru haldnir í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og ætlaðir börnum 7-12 ára. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru að mestu eldri borgarar og dagskráin mjög fjölbreytt og spennandi.  Meðal þess sem boðið verður upp á eru hnútabindingar, sögur frá því í gamla daga, ljósmyndun, umhverfis- og náttúrufræðsla, bingó, útileikir, fuglaskoðun og heimsóknir á hin ýmsu söfn.
Sjá nánar hér.