Krakkarnir í Enter hafa í ýmsu að snúast

12. maí 2011

Krakkarnir sem starfa með Kópavogsdeild Rauða krossins í verkefninu Enter hafa að undanförnu aðhafst ýmislegt skemmtilegt. Meðal annars fengu þau góða heimsókn frá Birte Harksen tónlistarkennara sem kenndi börnunum lög sem vöktu mikla athygli og lukku. Uppruni laganna var frá ýmsum löndum og meðal annars frá þeirra fæðingarlöndum. Krakkarnir lögðu nýlega leið sína í Þjóðminjasafnið. Vel var tekið á mót þeim, margt að skoða og farið var í leiki. Á næstkomandi laugardag verður farið með hópinn í hina árlegu vorferð þar sem börnin fá að fara á hestbak og leiki úti í náttúrunni.

Enter er starf með ungum innflytjendum sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Álfhólsskóla. Alla miðvikudaga koma börnin í Rauðakrosshúsið í Kópavogi þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Viltu gerast sjálfboðaliði?

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu sem sjálfboðaliðar geta haft samband við Kópavogsdeildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is. Verkefni sjálfboðaliða fela í sér að skipuleggja og stýra spennandi viðfangsefnum. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar. Verkefnið býður upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.