Verkefni með ungu fólki eflast í deildum

1. júl. 2011

Barna- og ungmennastarf er víða fastur liður í starfi deilda. Sérstökum ungmennadeildum hefur þó ekki fjölgað en nokkrar deildir bjóða hins vegar upp á afmörkuð verkefni sem eru sérstaklega ætluð ungmennum auk þess sem fjölmargar deildir eru í samstarfi við skóla og félagsmiðstöðvar með ýmsa fræðslu og tímabundið samstarf, m.a. tengt kynningum og fjáröflunum.

Öflugt ungmennastarf í Kópavogi
Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára og unnið í samstarfi við nýbúadeild Álfhólsskóla og Kópavogsbæ. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í Rauðakrosshúsið í Kópavogi og fá málörvun og samfélagsfræðslu í gegnum leiki, fræðslu, kynningarstarf og vettvangsferðir.

Um 30 börn voru skráð í verkefnið á síðasta ári og komu þau frá Portúgal, Póllandi, Rússlandi, Lettlandi, Tælandi, Víetnam, Haítí og Dóminíska lýðveldinu. Alls tóku 30 sjálfboðaliðar þátt í að stýra starfinu og var meirihluti þeirra skólafólk á þrítugsaldri. Verkefnið er því vinsæll vettvangur fyrir yngri sjálfboðaliða.

Eldhugar er verkefni fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára og miðar að því að íslensk og erlend ungmenni vinni saman að því að byggja betra samfélag, án mismununar og fordóma. Verkefninu er einnig ætlað að skapa grundvöll fyrir ungmenni af ólíkum uppruna til að hittast og hafa gaman saman. Eldhugar komu meðal annars frá Póllandi, Rúmeníu, Tælandi, Portúgal, Litháen og Íslandi, og frá öllum hverfum Kópavogs, alla leið frá Vatnsenda yfir í vesturbæ Kópavogs. Alls voru um 30 Eldhugar skráðir í verkefnið á hvorri önn skólaársins 2010. Sjálfboðaliðar voru samtals 16, þar af tveir hópstjórar.

Blómlegt starf í Firðinum
Ungmennahreyfing Rauða krossins í Hafnarfirði býður upp á starf fyrir börn og ungmenni 10 ára og eldri. Boðið er upp á fast starf einu sinni í viku yfir vetratímann, á miðvikudögum fyrir 10-12 ára og á fimmtudögum fyrir 13-16 ára. Eldri ungmenni eru ekki með fasta starfstíma heldur vinna öflugt sjálfboðaliðastarf og sjá til dæmis um krakkastarfið fyrir 10-12 ára hópinn af miklum dugnaði. Til að kynna starfið hafa verið hengd upp kynningarplaköt í grunnskólum, farið í heimsóknir og starfið sérstaklega kynnt fyrir ungum innflytjendum í samstarfi við móttökudeild innflytjenda í Lækjarskóla. Um 30 börn og unglingar eru virk í ungmennastarfinu.

Heilahristingur og heimanám í Reykjavíkurdeild
Aðstoð við heimanám hefur verið í boði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins um langa hríð, og var upphaflega sérstaklega ætlað börnum innflytjenda. Fimmtán sjálfboðaliðar sinna verkefninu. Þeir eru með fjölbreytta reynslu og á ýmsum aldri, jafnt framhalds-og háskólanemar, starfandi kennarar og kennarar sem komnir eru á eftirlaun. Verkefnið hefur þróast og í dag nýta íslensk börn sér aðstoð Rauða krossins sem og börn af erlendum uppruna. Verkefnið er rekið á tveimur stöðum í borginni; í húsnæði deildarinnar við Hlemm og í Gerðubergssafni í Breiðholti. Verkefnið Heilahristingur er af sama toga en unnið í samstarfi við Borgarbókarsafn Reykjavíkur. Það hefur hleypt nýju lífi í heimanámsaðstoð enda möguleikar til fjölbreyttari nálgunar á námið mun meiri en hægt er að bjóða upp á í húsnæði deildarinnar. Að jafnaði sækja um 25 börn heimanámið í hverri viku.

Gaman saman á Akranesi
Verkefnið Gaman saman á Akranesi leiðir saman ólíka hópa barna af ólíkum uppruna sem hafa að öðru leyti lítil samskipti innbyrðis. Fjallað er um mannréttindi og fjölmenningu, og eru leiðbeinendur flestir af erlendum uppruna. Átta sjálfboðaliðar, þar af fjórir karlmenn frá Póllandi, Portúgal og Líbíu, halda utan um hópinn og tóku 104 börn þátt í verkefninu á síðasta ári.

Mórall í Kjósarsýsludeild
Ungmennadeild Kjósarsýsludeildar starfrækir unglingahópinn Móral en starf hans miðast við að vinna að fjölbreyttum verkefnum í anda hugsjóna Rauða krossins og auka skilning á stöðu mismunandi hópa í samfélaginu. Meðal verkefna hópsins er fjáröflun en hópurinn framleiddi meðal annars brjóstsykur sem var seldur á jólamarkaði deildarinnar í Álafosskvosinni. Ágóðinn, kr. 60.000, rann í jólaúthlutun Kjósarsýsludeildar. Hópurinn hefur um nokkurra ára skeið tekið þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti og vakið athygli á málefninu með fjölbreyttum hætti, ásamt öðrum ungmennahópum. Virkir þátttakendur í Móral eru sjö talsins en auk þeirra eru fimm eldri sjálfboðaliðar (16 ára og eldri) sem halda utan um starfið.

Gleðjum aðra í Borgarfirði
Unglingastarf Borgarfjarðardeildar samanstendur af 10 stelpum á aldrinum 13-14 ára. Starfið gengur út á að vinna gegn fordómum og einelti ásamt því að auka skilning á stöðu þeirra sem minna mega sín. Hluti af hópnum er af erlendum uppruna og mikil áhersla er á að brjóta niður múra milli mismunandi menningarhópa í samfélaginu. Meðal verkefna unglingastarfsins er Gleðjum aðra en það gengur út á að bjóða mismunandi hópum í spjall, spil og leiki. Krökkunum í Holti, skammtímavistun fyrir fötluð börn, var boðið í slíka heimsókn sem mæltist mjög vel fyrir. Fjáröflun er stór hluti af starfi unglingastarfsins og stelpurnar bjuggu til skartgripi sem ætlunin var svo að selja á markaði deildarinnar.

Austfirðir
Mikil gróska var í ungmennastarfi á Austfjörðum. Hlutverkaleikurinn Á flótta var haldinn á Eiðum í október 2010. Rauða kross deildir á Austurlandi sáu um að finna þátttakendur og fundu 17 ungmenni á aldrinum 13-16 ára frá Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði og Egilsstöðum. Þetta er í fyrsta skipti sem leikurinn er haldinn á Austurlandi og heppnaðist vel. Þá hefur skyndihjálparhópur ungmenna verið mjög virkur

Sumarbúðir og sumarnámskeið
Eftir efnahagshrunið 2008 hefur Rauði kross Íslands lagt sérstaka áherslu á að aðstoða ungt fólk í gegnum yfirstandandi þrengingar í íslensku samfélagi. Hætta er á að mikill fjöldi barna og unglinga geti ekki sótt sumarnámskeið sökum fjárskorts foreldra. Deildir Rauða krossins víða um land og Ungmennahreyfingin brugðu á það ráð á síðasta ári að bjóða börnum og unglingum upp á spennandi námskeið yfir sumartímann, oftast þeim að kostnaðarlausu eða gegn vægu gjaldi. Í fyrra voru sumarnámskeið og sumarbúðir fyrir börn og unglinga 26 talsins og þau sóttu 450 börn.

Í sumar eru haldin fjöldi sumarnámskeiða, svo sem Börn og umhverfi, Gleðidagar, Mannúð og menning og sumarbúðir ungmennahreyfingarinnar verða haldnar í Alviðru í ágúst 2011. Hægt er að skrá sig hér.