Best er að sigra heiminn með brosi

Kristján S. Bjarnason blaðamannn á Skessuhorni

14. júl. 2011

Segja palestínskir sjálfboðaliðar sem starfað hafa hér á landi um hríð. Greinin um Mumma og Nael birtist í Skessuhorni 6. júlí 2011.

Mummi og Nael eru gælunöfn manna sem heita fullu nafni Mohammed Al-Nazer og Nael Rajabi. Þeir eru 25 ára gamlir og fæddir og uppaldir í Palestínu. Síðan snemma á unglingsárum hafa þeir félagarnir verið virkir í starfi Rauða hálfmánans í heimalandi sínu við störf tengd sjúkraflutningum og einnig hafa þeir um árabil verið hluti af trúðahópi sem ferðast um Palestínu og heimsækir sjúkarhús, skóla og munaðarleysingjahæli og létta stríðshrjáðum börnum lífið með alls kyns fíflagangi, en kynna einnig starf Rauða hálfmánans og ýmis hagnýt atriði varðandi fyrstu hjálp og hvernig eigi að nota neyðarnúmer (112) með klaufalegum og ansi spaugilegum trúðstilburðum. Þeir félagar hafa verið hér á landi síðan í janúar síðastliðnum og farið víða, heimsótt grunnskóla og troðið upp með sitt trúðsprógram. Einnig hafa þeir haldið fræðslufundi um heimaland sitt og þær aðstæður sem þeir búa við fyrir framhaldsskóla og almenning. Allt í sjálfboðavinnu og hafa gaman af. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með þeim félögum og átti spjall um uppruna þeirra og störf.

Á Íslandi í annað sinn á stuttum tíma
Mummi er hér á Íslandi í annað sinn á stuttum tíma, kom hingað á vegum Rauða hálfmánans í fyrsta skipti í lok nóvember 2010 ásamt Mohammed Dawoo samlanda sínum í þeim tilgangi að kynna sér það sem snýr að sjúkraflutningum hér á landi í boði alþjóðasviðs Rauða kross Íslands. Voru þeir meðal annars nokkra daga með slökkviliðinu í Reykjavík, sjúkraflutningamönnum á Akranesi og í Borgarnesi svo fátt eitt sé nefnt. Dvöldu þeir í rúmar þrjár vikur hér á landi en héldu heim að þeim tíma loknum. Í janúar var Mummi kominn aftur til Íslands, í þetta skiptið með æskufélaga sínum Nael Rajabi og hafa þeir haldið til á Akranesi þann tíma sem þeir hafa verið hér. Auk trúðsláta sinna hvar sem þeir koma og fyrirlestra um heimaland sitt hafa þeir verið boðnir og búnir að leggja fram krafta sína hvar sem þeirra er þörf, hafa meðal annars aðstoðað unga samlanda sína í Brekkubæjarskóla og unnið ýmis sjálfboðastörf fyrir Akranesdeild Rauða krossins svo eitthvað sé nefnt, allt í sjálfboðavinnu eins og áður segir.

Skemmtilegra að lifa brosandi
Það vekur athygli að þeir félagar eru alltaf brosandi og fljótir til að sjá spaugilegar og jákvæðar hliðar á hlutunum, sem blaðamanni finnst óneitanlega stinga talsvert í stúf við þá ímynd sem umfjöllun vestrænna fjölmiðla gefur af almenningi í Palestínu og þær aðstæður sem þeir hafa lifað við allt sitt líf. „Maður veit ekkert hvenær maður deyr, það gæti þess vegna verið á morgun, svo það er um að gera að hafa gaman af þeim stundum sem maður hefur,“ er lífsspeki sem þeir félagar lifa eftir. Fyrir okkur núlifandi Íslendinga sem þekkjum fæst fjölskyldu og vinamissi vegna stríðsátaka er svona lífsspeki eitthvað sem við kannski grínumst með okkar á milli en leiðum sjálfsagt sjaldnar alvarlega hugann að merkingu og innihaldi.
Mummi og Nael hafa báðir misst marga vegna langvarandi átaka á heimaslóðum. Í þeirra daglegu störfum sem sjálfboðaliðar við sjúkraflutninga, þar sem nálægð dauðans er nánast daglegt brauð, hlýtur þetta lífsmottó að hafa aðra og mun dýpri merkingu.

Sjálfboðaliðar frá unga aldri
En af hverju ákváðu þeir félagar að eyða kröftum sínum í að hjálpa samlöndum sínum í neyð og létta börnum í Palestínu sem eiga um sárt að binda lífið, frekar en að mótmæla og berjast gegn yfirgangi Ísraelsmanna?
Mummi verður til svars: „Ég er alinn upp við starf Rauða hálfmánans tengdu sjúkraflutningum og því hvernig hægt er að hjálpa samlöndum mínum frekar en að mótmæla og berjast við ísraelska hermenn því fyrir mér þjónar það engum tilgangi. Það er ekki við þá að sakast heldur ráðamenn og yfirvöld í Ísrael. Sem barn var ég heillaður af starfi sjúkraflutningamanna og langaði alltaf að sjá hvernig væri umhorfs í sjúkrabílum sem ég tengdi við aðhlynningu særðra og björgun mannslífa. Árið 2002 byrjaði ég sem virkur sjálfboðaliði hjá Rauða hálfmánanum og hóf þá strax að sækja mér þekkingu og lærdóm sem myndi nýtast mér við störf sjúkraflutningamanna og hef síðan þá verið stöðugt að bæta við mig þekkingu á því sviði, nú síðast með þvi að koma hingað til Íslands í árslok í fyrra í boði Rauða kross Íslands ásamt Mohammed Dawoo.“
Nael hefur svipaða sögu að segja um sína þáttöku í starfi Rauða hálfmánans sem snýr að starfsemi sjúkraflutninga í Palestínu en hann byrjaði sem sjálfboðaliði árið 1998.

Trúðahugmyndin frá Spáni
En þeir félagar starfa ekki aðeins við sjúkraflutninga og aðstoð við slasaða, heldur eru þeir einnig eins og áður segir í hópi trúða sem ferðast um Palestínu og laða fram bros hjá börnum sem eiga um sárt að binda vegna langvarandi átaka í heimalandi þeirra. Að þeirra frumkvæði var hópur stofnaður undir merkjum Rauða hálfmánans sem tók að sér að klæðast trúðsgervi og fara af stað með verkefnið í áðurgreindum tilgangi. Þegar spurt er um hvernig þessi hugmynd kviknaði verður Nael fyrir svörum:

„Hugmyndin kviknaði fyrir nokkrum árum þegar hópur trúða kom frá Spáni á vegum „Trúða án landamæra,“ en það er hópur trúða víða að úr Evrópu sem vinnur eftir svipaðri hugmyndafræði og læknar án landamæra sem flestir hafa væntanlega heyrt um. Ég og nokkrir félagar innan Rauða hálfmánans fórum í kjölfarið að velta fyrir okkur hvort við fengjum ekki stuðning til að koma á fót hópi trúða í Palestínu sem hefði það hlutverk að létta börnum lífið sem á um sárt að binda á munaðarleysingjaheimilum, sjúkrahúsm og í skólum. Fyrsta árið eða svo vorum við að fikta okkur áfram án þess að vita almennilega hvað við værum að gera en árið 2006, eftir að hafa leitað talsvert eftir stuðningi var mér, ásamt nokkrum öðrum sjálfboðaliðum Rauða hálfmánans boðið til Ítalíu þar sem við vorum í tvo mánuði að læra listina að vera trúður og síðan þá hefur þetta verið fastur liður í sjálfboðastarfi okkar og Rauða hálfmánans.“

Fræðsla er besta vopnið
Eins og fyrr hefur komið fram hafa þeir félagar beitt kröftum sínum í að hjálpa og létta samlöndum sínum lífið, en þegar talið óhjákvæmilega berst að sambúðinni við Ísraelsmenn hafa þeir sterkar og afdráttarlausar skoðanir á þvi hvernig sú sambúð gengur fyrir sig og þeim aðstæðum sem þeim eru búnar á sínum heimaslóðum.
„Þar sem við höfum farið höfum við reynt eftir fremsta megni að upplýsa fólk um það hvernig ástandið er í raun og veru á okkar heimaslóðum en það verður að segjast eins og er að fréttaflutningur vestrænna fjölmiðla af ástandinu hefur gegnum tíðina vera frekar einhliða og ekki gefið raunsanna mynd af raunverulegu ástandi í Palestínu. Réttar upplýsingar og fræðsla eru okkar sterkasta vopn en vandinn er að sú saga sem við höfum að segja er mikið á skjön við þær hugmyndir sem fólk á Vesturlöndum hefur um ástandið frá okkar heimaslóðum,“ segir Mummi aðspurður um hvernig þeir upplifi viðhorf okkar Vesturlandabúa til þeirra og Palestínumanna almennt.

Ferðafrelsi lítið
Og Nael heldur áfram: „Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarin ár hafa þau svæði sem við byggjum sífellt farið minnkandi og skorður sem búseturéttur okkar og ferðafrelsi er settur hafa aukist og harðnað ár frá ári. Girðingar og eftirlitsstöðvar skipta landssvæðum okkar upp og virðast settar upp hvar og hvenær sem Ísraelsmönnum dettur i hug að setja þær upp. Það sem yfirleitt er ekki mikið talað um er að mjög tímafrekt getur verið að komast á milli svæða og sem dæmi getur ferðalag sambærilegt við það að fara frá Akranesi til Reykjavíkur sem tekur um 45. mínútur tekið allt frá tveimur tímum og upp í að taka allan daginn ef þú þarft að fara í gegnum eina eftirlitsstöð eða fleiri. Stundum er svæðunum einfaldlega lokað án neinna skýringa. Það virðist fara eingöngu eftir duttlungum og skapi þeirra sem starfa á þessum eftirlitsstöðvum hversu hratt eða seint það gengur fyrir sig að komast á milli svæða, sem til dæmis gerir okkur ókleift að búa á einu búsetusvæði og vinna á öðru.“

Menntun lítils virði í Palestínu
Mummi er menntaður í markaðsfræðum, var við nám í Englandi í þrjú ár en hefur ekki getað nýtt sér menntun sína í Palestínu. Aðspurður um ástæðuna segir hann að menntun í Palestínu sé ekki mikils virði vegna mikils atvinnuleysis og þess hvernig ástandið almennt er. „Það fólk sem sækir sér menntun á næstum hvaða sviði sem er verður að sækja sér vinnu út fyrir búsetusvæði sín, erlendis eða til Ísrael langi það að fá vinnu sem hæfir þeirra menntun. Talsvert margir Palestínumenn búa og starfa í Ísrael en við að flytjast þangað fá þeir annars konar skilríki sem gera þeim ókleift að fara til sinna heimaslóða og mega ekki umgangast okkur sem búum þar og öfugt. Nálega níu af hverjum tíu sem ganga menntaveginn og snúa heim að námi loknu klára því sína menntun og hengja að því loknu prófskírteini sín á einhvern góðan stað upp á vegg en halda svo áfram að ganga atvinnulausir eða, séu þeir heppnir, fá vinnu sem tengist ekki á neinn hátt þeirra menntun.“

Mannréttindi ekki mikilsvirt
Það vekur fljótt athygli þeirra sem hafa ferðast með Mumma og Nael hér á landi, að þeir eiga erfitt með að venjast þvi að þurfa ekki að hafa sífelldar áhyggjur af þvi hvort þeir hafi vegabréfin sín meðferðis eða ekki, eitthvað sem okkur, sem búum við óheft frelsi til að fara nánast þangað sem okkur sýnist kemur spánskt fyrir sjónir og þykir jafnvel stundum svolítið fyndið.
„Þú getur nánast ekki farið vandræðalaust út í búð nema hafa þína pappíra meðferðis,“ segja þeir félagar þegar undirritaður spyr um ástæðu þessa. „Þú getur átt von á því að vera stoppaður hvar sem er í Palestínu af ísraelskum hermönnum, það er ekki mikil virðing borin fyrir mannréttindum okkar fyrir, en hafirðu ekki pappíra sem sýna hver þú ert er hún engin og þú getur átt von á hverju sem er af þeirra hálfu sé einhverju ábótavant í þeim efnum. Sama er að segja um störf okkar á vegum Rauða hálfmánans. Almennt er mikil virðing borin fyrir starfsemi Rauða krossins og Rauða hálfmánans hvar í heiminum sem hann starfar á átakasvæðum en þó við séum vel merktir við störf okkar við sjúkraflutninga og ættum að komast vandræðalaust ferða okkar er það alls ekki alltaf svo. Við höfum horft upp á samlanda okkar deyja nánast fyrir framan nefið á okkur vegna þess að okkur hefur seint og illa verið hleypt inn á svæði þar sem átök hafa átt sér stað. Það er skelfileg lífsreynsla að þurfa að horfa aðgerðarlaus upp á slíka hluti gerast og fá oftast litlar sem engar skýringar á því hvers vegna okkur er meinað að hjálpa samlöndum okkar við slíkar aðstæður.“

Dvalarleyfi út árið
Þeir félagar hafa eins og áður segir dvalist á Akranesi síðan í janúar. Hafa þeir auk starfa sinna fyrir Rauða kross hreyfinguna á Íslandi og sérstaklega Akranesdeild Rauða krossins unnið með börnum flóttakvennanna sem hingað komu fyrir tveimur árum, aðstoðað þau við sína skólagöngu og að komast inn í lífið við nýjar aðstæður á nýjum stað. Árangurinn af því starfi hefur gefið það góða raun að undanfarnar vikur hefur verið unnið að því á vegum Akraneskaupstaðar að útvega þeim áframhaldandi dvalarleyfi sem og atvinnuleyfi á Íslandi og nýlega fengu þeir þau gleðitíðindi að leyfið væri í höfn svo þeir munu dvelja hér á Íslandi fram að næstu áramótum en framtíðin upp frá því er óviss.

„Þetta munar miklu fyrir okkur,“ segir þeir aðspurðir um hvaða þýðingu veiting leyfanna hafi fyrir þá. „Þann tíma sem við munum vera hér á landi eftir að hafa fengið dvalar- og atvinnuleyfi getum tekið virkan þátt í samfélaginu, unnið okkar vinnu með palestínsku börnunum, þegið laun fyrir og borgað skatta og skyldur eins og aðrir íbúar hér,“ segja þeir að lokum jafnákveðnir sem fyrr að besta leiðin til að sigra heiminn sé með brosi, hlýju viðmóti og smádassi af bjánaskap í bland.