Sjálfboðaliði vikunnar

25. ágú. 2011

Fyrir fimm árum síðan kom ung stúlka á kynningu um starf fyrir ungt fólk hjá Rauða krossinum. Hún ætlaði að kíkja við og kanna hvað þarna væri á ferðinni en hefur allt frá þeim degi verið á fullu í Rauðakross starfi með Hafnarfjarðardeildinni. Við tókum Örnu Bergrúnu Garðarsdóttur tali til að kanna hvað það er sem heillar hana við sjálfboðaliðastörfin hjá Rauða krossinum.

Í hvaða verkefni ertu og í hverju felst það?
Ég hef að mestu verið að starfa í kringum Ungmennastarfið. Þar á meðal vetrarstarf-, sumarbúðir- og nefndir innan URKÍ. Er varamaður í stjórn hjá Hafnarfjarðardeild og hef einnig verið að starfa við verkefnið „Á Flótta“ þar sem ungmenni fara í hlutverkaleik byggðan á því að öðlast meiri skilning á lífi flóttafólks úti í heimi.

Hversu oft sinnirðu sjálfboðastarfi?
Ætli það sé ekki svona 2-3 í viku yfir veturinn.

Hversu lengi ertu búin að starfa í sjálfboðastarfi?
Síðan 2006.

Hvað gefur það þér að vera sjálfboðaliði?
Ég hef fengið að kynnast svo mörgum mismunandi hlutum síðan ég byrjaði sem er auðvitað frábært, að gefa af sér er bara æðisleg tilfinning en fyrst og fremst er það svo gríðarlega skemmtilegt.

Myndir þú mæla með sjálfboðastörfum við vin?
Hef oft gert það og mun auðvitað bara halda því áfram. Þetta er svo skemmtilegt, gefandi og frábær upplifun.

Ef þú vilt gerast sjálfboðaliði hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hafðu samband í síma 565-1222 eða sendu okkur póst á hafnarfjordur@redcross.is