Galdrar og gaman í tómstundarhúsi á Akranesi

17. mar. 2003

Í Tómstundahúsinu á Akranesi er margt brallað. Þar fæst að margra dómi besta kaffið á Vesturlandi, kakó, gos og gómsætt bakkelsi og nammi. Svo geta gestirnir komist í tölvur með nettengingu eða komið með sínar eigin og stungið í ADSL-samband. Þarna er dvd-spilari, sjónvarpstæki með fjölda rása og heimabíó. Þá er á staðnum geislaspilari, mixer, karaókí og mjög öflugt hljómkerfi.

Rauða kross deildirnar á Vesturlandi standa að resktri hússins ásamt Akraneskaupstað. Markmiðið er að bjóða ungu fólki aðstöðu til skemmtunar og dægradvalar án vímuefna og tóbaks. Krakkarnir skipuleggja sem mest það sem fer fram í húsinu og þau eru hvött til að sýna frumkvæði og skapandi starf.

Margs konar starf fer fram í húsinu og í tengslum við það. Þar eru haldnir fundir, bæði hjá Ungmennahreyfingu Rauða kross Íslands - URKÍ - og öðrum hópum, námskeið um margvísleg efni og fræðsla í forvörnum.