Landsmót Urkí 2003

Nokkrar hressar á landsmótinu

12. sep. 2003

Um síðustu helgi var haldið Landsmót URKÍ. Landsmótið var fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára. Að þessu sinni var það haldið á Varmalandi í Borgarfirði.

Aðstaða var mjög góð, gist var í Varmalandsskóla og verkefnavinna og kvöldvaka fór fram í íþróttasal.

Um 110 þátttakendur, þar með taldir leiðbeinendur, sóttu mótið.

Dagskráin var þétt skipuð. Fræðsla um Rauða krossinn var að morgni laugardags. Eftir hádegi var unnið með þema mótsins sem var "Börn í stríði" og voru fyrirlestrar, myndbönd og verkefnavinna.

Aðalfyrirlesari var Eva Laufey Stefánsdóttir sendifulltrúi, en hún hefur starfað í Kenýa og Írak á vegum Rauða krossins. Hún var með mjög áhugaverðan fyrirlestur þar sem hún sagði frá starfi sínu þar og upplifun og sýndi myndir.

Eftir fræðslu og fyrirlestur um börn í stríði var þátttakendum skipt í hópa þar sem umræður fóru fram um efnið og að lokum málaði hver hópur stóra mynd, annars vegar heim barna í stríði og hinsvegar sinn heim.

Eftir þemavinnuna var farið í sund í Borgarnesi og borðað í Hyrnunni. Á laugardagskvöldinu var kvöldvaka og diskó og var mikið fjör.

Landsmótsnefnd þakkar þátttakendum, leiðbeinendum, deildum á Vesturlandi og húsráðendum á Varmalandi fyrir góða og skemmtilega samveru um helgina.