Sjálfboðið starf tengt Fjölsmiðjunni

22. okt. 2003

Rauði kross Íslands hefur lýst yfir áhuga á að skapa sjálfboðaverkefni sem tengjast starfsemi Fjölsmiðjunnar í Kópavogi.

Á fundi með starfsfólki Fjölsmiðjunnar spruttu upp ýmsar hugmyndir um verkefni fyrir sjálfboðaliða Rauða krossins sem geta komið til góðs fyrir nemendur Fjölsmiðjunnar. Meðal hugmynda voru heimsóknavinir fyrir þá nemendur Fjölsmiðjunnar sem eiga erfitt með að mynda félagsleg tengsl og einnig voru hugmyndir um fræðslu, viðburði og uppákomur fyrir nemendurna sem sjálfboðaliðar skipulegðu og tækju þátt í.

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur verið falið að halda utan um sjálfboðin verkefni sem tengjast Fjölsmiðjunni. Hins vegar vill deildin að sem flestar deildir á höfuðborgarsvæði tengist verkefninu ekki síst þar sem rekstur Fjölsmiðjunnar er sameiginlegt verkefni deilda á höfuðborgarsvæðinu.

Kópavogsdeild vill því hvetja áhugasama sjálfboðaliða allra deilda á höfuðborgarsvæði til þess að koma að skipulagningu og framkvæmd sjálfboðins starfs tengdu Fjölsmiðjunni. Ungmennahreyfingin  á höfuðborgarsvæðinu er sérstaklega hvött til þess að tengjast verkefninu þar sem hugmyndir eru uppi um að sjálfboðaliðar tengdir Fjölsmiðjunni verði margir hverjir frá 16 ára aldri og upp í um 35 ára.

Kópavogsdeild vill bjóða sjálfboðaliðum sem vilja taka þátt í að móta verkefni tengd Fjölsmiðjunni á fund miðvikudaginn 5. nóvember kl. 20.00 þar sem rætt verður um möguleg verkefni og útfærslu þeirra.

Á fundinum er stefnt að því að mynda starfshóp sjálfboðaliða sem mun sjá um að skipuleggja verkefni sjálfboðaliða í Fjölsmiðjunni og taka þátt í þeim. Starfshópurinn mun t.d. geta komið með hugmyndir að og skipulagt áhugaverða fræðslu fyrir nemendur Fjölsmiðjunnar og vettvangsferðir og menningarviðburði sem ungum sjálfboðaliðum stæði einnig til boða.

Fundurinn verður haldinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í Hamraborg 11.

Nánari upplýsingar veitir starfsmaður Kópavogsdeildar, Fanney, í gegnum netfangið kopavogur@redcross.is eða í síma 554 6626 / 696 9848.

Vonumst til að sjá sem flesta.