Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans

11. des. 2003

Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans var haldinn hátíðlegur í Sjálfboðamiðstöðinni á Hverfisgötu á föstudaginn síðastliðinn.

Kvöldið fór vel fram og var sprellað fram eftir kvöldi. Mæting var góð þótt synd væri að segja að ungt fólk hafi fjölmennt.

Um kvöldið voru m.a. kynntar niðurstöður rannsóknar sem Rauði krossinn hefur látið vinna um efnahagslegt mikilvægi sjálfboðins starfs fyrir samfélagið.

Þar kom meðal annars fram að hver króna sem Rauði krossinn ver í sjálfboðið starf þrefaldar gildi sitt, og er þá einungis tekið með í reikninginn efnahagsleg áhrif.  

Sjálfboðaliðar Rauða krossins skiluðu tæplega 70 þúsund klst. í vinnu árið 2002 (sem var árið sem rannsóknin náði til) og af því skiluðu sjálfboðaliðar Urkí-R rúmlega átta þúsund klst. í sjálfboðið starf sem er dágott hlutfall. Þess ber þó að geta að rannsóknin náði til 70% af sjálfboðnu starfi hreyfingarinnar.