Annríki hjá Skyndihjálparhóp

Tumi

4. jún. 2004

Rauði krossinn starfrækir skyndihjálparhóp í Reykjavík eins og kunnugt er. Meðlimir hópsins hafa eðli máls samkvæmt brennandi áhuga á skyndihjálp og standa fyrir reglulegum æfingum og fræðslu fyrir meðlimi hópsins. Auk þess tekur hópurinn að sér skyndihjálpargæslu við ýmis tækifæri svo sem eins og á framhaldsskólaböllum, verslunarmannahelgum og stórtónleikum. Aldrei hefur verið meira að gera hjá hópnum en um þessar mundir.

Framundan er mesta tónleikasumar í manna minnum og hafa meðlimir hópsins í nógu að snúast við að skipuleggja þær vaktir en um 10-15 manns þarf til að dekka vaktir á stórtónleikum svo vel fari enda oft kátt í höllinni þegar heimsfrægar hljómsveitir troða upp.

Í síðustu viku hélt hin fornfræga hljómsveit Pixies tvenna tónleika í Kaplakrika og sá Skyndihjálparhópurinn um skyndihjálpargæslu. Um síðustu helgi var svo þungarokksveitin Korn með tvenna tónleika í Laugardagshöll og var meðfylgjandi mynd tekin við heimahöfn hópsins á þeim tónleikum. Framundan eru svo fleiri tónleikavaktir m.a. á tónleikum hljómssveitarinnar Metallica sem verða í Egilshöll og verða að öllum líkindum stærstu tónleikar sem nokkurn tímann hafa verið haldnir hér á landi en reiknað er með 15 þúsund tónleikagestum.

Annað  stórt verkefni framundan hjá Skyndihjálparhóp á næstunni er viðamikil keppni landsfélaga  Rauða krossins í skyndihjálp sem fram fer í Salzburg í Austurríki dagana 10. -13. júní næstkomandi. Sex manna harðsnúið lið frá Skyndihjálparhópnum mætir á keppnina og ætlar sér stóra hluti.