Fræðsla fyrir nemendur Vinnuskóla Reykjavíkur

Hrafnkel Tuma Kolbeinsson

1. júl. 2004

Krakkar frá Hvassaleitisskóla, Álftamýrarskóla og Háaleitisskóla með leiðbeinendum Vinnuskólans og Bóasi og Sigríði Víðis.
Þessa dagana er mikið um að vera í Sjálfboðamiðstöð Reykjavíkurdeildarinnar á Hverfisgötunni. Næstu vikurnar er reiknað með að um sjö hundruð unglingar leggi þangað leið sína.

Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og Geðrækt gerðu samning við Vinnuskóla Reykjavíkur um að bjóða 15 ára nemendum Vinnuskólans uppá fræðsludag og koma á milli 15 og 25 nemendur á hverjum degi dag hvern frá 14 júní og út júlí.

Í fræðslunni er komið víða við. Geðrækt  kemur með innlegg um sjálfsmynd fólks og geðheilsu en Rauði krossinn leggur áherslu á að kynna hugsjónir Rauða krossins, grundvallarmarkmiðin sjö og sjálfboðið starf. Auk þess er Hjálparsíminn 1717 kynntur sem og sjálfshjálparpakkinn „Ef bara ég hefði vitað” sem Rauði krossinn stóð fyrir útgáfu á í vetur sem leið og finna má á vef Rauða krossins: redcross.is/efbara.

Leiðbeinendur leggja áherslu á að gera fræðsluna sem líflegasta og krydda hana með leikjum og þrautalausnum þar sem við á. Á góðviðrisdögum hefur fræðslan að hluta til farið fram utandyra enda erfitt að halda fullri einbeitingu í rykinu inni á meðan sólin skín sem skærast.

Krakkarnir á myndinni koma frá Hvassaleitisskóla, Álftamýrarskóla og Háaleitisskóla og starfa í sumar við að hirða garða fyrir ellilífeyrisþega sem þess óska.

Leiðbeinendur eru Bóas Valdórsson fyrir hönd Geðræktar en Sigríður Víðis Jónsdóttir fyrir hönd Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.