SAMAN-hópurinn kynnir niðurstöður könnunar á viðhorfum foreldra

Önnu Ingadóttur

7. júl. 2004

SAMAN-hópurinn stóð að gerð sjónvarpsauglýsinga „Setjum okkur í spor annars".
Þriðjudaginn 6. júlí sl. hélt SAMAN-hópurinn blaðamannafund þar sem kynntar voru niðurstöður könnunar sem Gallup gerði á viðhorfum foreldra til ýmissa þátta er varða uppeldi barna og unglinga og áfengis- og vímuefnanotkun.

Árið 2003 gerði Rannsóknir og greining ehf., könnun á vímuefnaneyslu nemenda í 8. ,9. og 10. bekk. Athyglisvert er að bera þessar kannanir saman. Um 20% foreldra barna í 10. bekk vissu að barn þeirra hefði drukkið áfengi, hins vegar sögðust 75% nemenda í 10. bekk árið 2003 hafa smakkað áfengi, þar af sögðust tæp 54% hafa orðið drukkin. Ljóst er að þrátt fyrir að foreldrar telji sig fylgjast vel með börnum sínum og hafi ákveðnar reglur og ramma í uppeldinu kemur í ljós að misræmis gætir milli hugmynda foreldra um neyslu unglinganna og þeirra svara sem unglingarnir gefa um eigin neyslu.

Sumarið er tíminn þegar foreldrar, börn og unglingar eiga mestan frítíma. Þá hafa unglingar líka oft meira fé á milli handanna en þeir eru vanir. Sumarið er því nokkur áhættutími því reynslan hefur sýnt að þá byrja unglingar oft að nota tóbak og/eða vímuefni. Því stendur nú SAMAN-hópurinn eins og undanfarin sumur fyrir auglýsingaátaki þar sem styðjandi skilboðum er beint til foreldra. Nú eru foreldrar hvattir til að halda vöku sinni og leyfa ekki eftirlitslaus partý eða ferðalög unglinga. Einnig vill SAMAN-hópurinn leggja áherslu á að foreldrar fylgist vel með börnum sínum, verji tíma með þeim og safni góðum minningum.

Á grundvelli þessara upplýsinga hefur SAMAN-hópurinn staðið að gerð sjónvarpsauglýsinga „Setjum okkur í spor hvers annars”, m.a. til að vekja athygli á þessu og að minna á mikilvægi trausts og virðingar milli foreldra barna. Foreldrar hafa sýnt að með samtakamætti sínum eru þeir bestir í forvörnum. Forvarnarsjóður, Kópavogsbær, Pokasjóður, Reykjavíkurborg og Skjár 1 hafa stutt við gerð auglýsinganna og birtingu þeirra. Sjónvarpsauglýsingarnar verða birtar á Skjá einum í sumar. (sjá auglýsingar: http://mail.mad.is/mad/saman/)

SAMAN-hópurinn
er samstarfshópur um forvarnir sem stuðla að velferð barna. Í hópnum er fólk sem vinnur með og fyrir börn og unglinga. Tengist sú vinna einkum forvörnum, uppeldi, menntun, meðferðar- og ráðgjafarúrræðum. Meginmarkmiðin með starfi hópsins er að vinna saman að því að styðja og styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu.

Rauði kross Íslands á fulltrúa í SAMAN-hópnum ásamt ýmsum fleirum.