Námskeiðin Mannúð og Menning haldin á höfuðborgarsvæðinu

Susan og Hildi

12. júl. 2004

Þátttakendur á námskeiðinu Mannúð og Menning með leiðbeinendunum Susan Martin og Hildi Tryggvadóttur Flóvenz.
Sumarið 2004 ákváðu Rauða kross deildirnar á höfuðborgarsvæðinu að bjóða krökkum á aldrinum 9-11 ára á námskeiðið Mannúð og Menningu, sem var áður haldið á vegum Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. 

Dagskrá námskeiðsins, sem er vikulangt, er fjölbreytt blanda af fræðslu og leik sem stuðla á að auknum þroska þeirra í samskiptum við aðra. Sérstök áhersla er lögð á að útskýra og túlka tilgang og markmið í starfi Rauða kross hreyfingarinnar þannig að börnin geti tileinkað sér þau gildi sem felast í mannúðarhugsjóninni. Með öðrum orðum erum við að benda krökkunum á að allt starf Rauða krossins byggist fyrst og fremst á sameiginlegum eiginleika sem allir menn búa yfir, sem er góðmennska eða kærleikur.

Allir dagar vikunnar eru tileinkaðir ákveðnum þema. Á mánudeginum er  fræðsla og verkefni um Rauða krossinn, þriðjudagur einblínir á umhverfið okkar, miðvikudagur er skyndihjálpardagur, fimmtudagur er alþjóðadagur og föstudagur er sund og partýdagur! Hópastærðin hefur verið 9-16 einstaklingar og oft fæðist vinátta innan hópsins sem lifir áfram eftir að námskeiðinu lýkur.

Við forðumst að láta krakkana finnast þau vera komin aftur í skólann, enda væri það ómannúðlegt nú þegar sumarfríið hefur styst svo um munar. Hóparnir fara út í leiki og í vettvangsheimsóknir, stundum tvisvar á dag. Sem dæmi heimsækjum við skógræktarsvæði í hverju bæjarfélagi á umhverfisdeginum, fáum fræðslu um náttúruna, tínum rusl og teiknum myndir sem lýsa hreinu og menguðu umhverfi. Á alþjóðadegi förum við í Alþjóðahúsið og tökum þátt í dagskrá þar sem krakkarnir hlusta á fyrirlestur um fjölmenningu og fordóma, fara í leiki og spila á trommur.

Viðbrögð foreldranna hafa einnig verið einstaklega jákvæð sem er staðfesting á að námskeiðið Mannúð og Menning á sér tilverugrundvöll innan um alla flóruna í sumarnámskeiðum sem skólabörnum er boðið upp á.