Stórslys í Alpafjöllunum - evrópukeppni í skyndihjálp

9. ágú. 2004

Sjö ungmenni af höfuðborgarsvæðinu héldu suður til Alpafjallanna í byrjun júní í þeim tilgangi að taka þátt í Evrópukeppni Rauða krossins í skyndihjálp. Keppnin var haldin í fallegum dal í bænum Bad Hofgastein í Austurríki. Dagarnir áður en keppnin fór fram voru nýttir í skoðunarferðir um ægifegurt nágrennið. Meðal annars var heimaborg Mozartkúlnanna, Salzburg, sótt heim auk þess sem farið var upp á fjallið Schlossalm með kláfferju.

Keppnisdagurinn sjálfur var langur og strangur en umfram allt stórskemmtilegur. Keppnin fer þannig fram að sviðsett eru mismunandi slys og óhöpp, til dæmis bílslys, bankarán, drukknun í sundlaug og svo framvegis. Til að gera langa sögu stutta hlaut íslenska liðið 78% stiganna og endaði í 24. sæti af 26. Árangurinn er kannski ekki til að hrópa húrra fyrir en við erum reynslunni ríkari og þegar farin að undirbúa þjálfun næsta liðs. Sigurvegarinn þetta árið var liðið frá Armeníu sem þótti tíðindum sæta.

Hér að neðan má nálgast myndband með viðtali við liðsstjóra armenska liðsins örfáum mínútum eftir að úrslitin voru tilkynnt.

/redcross/upload/files/myndbond/vidtal.wmv