Alþjóðlegar sumarbúðir 2004

Sólveigu Hildi Björnsdóttur

18. ágú. 2004

Alþjóðlegar sumarbúðir eru haldnar annað hvert ár. Þarna sjást þátttakendur sumarbúðanna árið 2002.
Skráning er hafin á alþjóðlegar sumarbúðir sem Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands heldur dagana 2. til 6. september 2004. Skráningin stendur yfir til 23. ágúst. Sjálfboðaliðar frá átta landsfélögum á aldrinum 16-25 ára hafa tilkynnt þátttöku sína.

Sumarbúðirnar verða að þessu sinni haldnar að Snorrastöðum á Snæfellsnesi þar sem gist verður í sumarbústöðum.

Aðal þema sumarbúðanna verður Börn í stríði og munu erlendu þátttakendurnir segja okkur frá því sem er að gerast í heimalandi sínu sem tengist viðfangsefninu. Unnið verður í hópum að ýmsum málefnum sem varða börn í stríði og munu þátttakendur kynna niðurstöður sínar m.a. í fjölmiðlum hérlendis og í heimalöndum. Samhliða hópavinnunni verður ýmis konar útivist og félagslíf.

Eftirfarandi málefni verða rædd í hópum:Alþjóðlegar sumarbúðir 2004
1. Týnd börn
2. Börn sem tekin eru af lífi
3. Börn sem hefur verið misþyrmt
4. Barnahermenn
5. Börn hneppt í þrældóm
6. Börn á flótta
7. Viðskilin börn

Nauðsynlegt þykir að sjálfboðaliðar hafi kynnt sér málefnið vel og séu í stakk búnir til að taka þátt í umræðum og verkefnavinnu. Benda má þátttakendum á  ýmiskonar lesefni um börn og stríð á heimasíðu Rauða kross Íslands.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í málefnalegri umræðu um börn í stríði og svo skemmtilegu félagslífi skaltu endilega skrá þig fyrir 23. ágúst. Þátttakendur þurfa jafnframt að velja sig í hóp (og hafa einn til vara) fyrir þann tíma. Töluð verður enska á sumarbúðunum.

Ykkur er velkomið að hafa samband við Sólveigu ef þið óskið nánari upplýsinga í síma 570 4035 eða senda póst á solveighildur@redcross.is