Rauði kross Haiti tekur þátt í „fótbolta fyrir friði.”

Eftir Marko Kokic, Port-au-Prince

25. ágú. 2004

Áhorfendur fagna í leik Haiti og Brasilíu.
Hátt friðarkall voru aðalskilaboðin sem gefin voru í vináttuleik milli knattspyrnuliða Haiti og Brasilíu á Sylvio Castor leikvanginum í Port-au-Prince á dögunum. Á meðan stjörnur eins og Ronaldo, Ronaldinho og Roberto Carlos sýndu snilldartakta á vellinum veitti Rauði kross Haiti stuðning með sjúkrabílum, læknum, hjúkrunarfræðingum og 30 sjálfboðaliðum sem voru tilbúnir til að veita fyrstu hjálp til bæði leikmanna og áhorfenda ef á þurfti að halda.

Það skipti ekki máli þó að geta liðanna væri ólík. Áhorfendur fögnuðu alveg jafn ákaft þegar heimsmeistararnir skoruðu og þegar hetjurnar heima fyrir náðu skoti á markið. Þó að lokastaðan hafi verið 6-0 fyrir Brasilíu fannst öllum þeir vera sigurvegarar. Þeir þúsundir áhorfenda sem voru á vellinum fundu fyrir miklu stolti yfir því að stórstjörnur Brasilíu hefðu samþykkt að heimsækja þá og spila fótbolta í þessu litla, hrjáða landi, sem nýlega hafði verið vettvangur borgaralegra átaka og mikilla flóða.

Það er sérstakt samband milli Haiti og Brasilíu. Fyrir utan að dást að knattspyrnuhæfileikum þjóðarinnar lítur Haiti á Brasilíu sem fyrirmynd þar sem ríkir samheldni og efnahagslegur stöðugleiki auk þess sem landið nýtur virðingar í samfélaginu. Íbúar Haiti voru ekki síður stoltir af heimsókn frá forseta Brasilíu, Luiz Ignacio da Silva. Brasilía gegnir einnig sérstöku hlutverki í að vinna að friði í Haiti með sérstöku verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Haiti þekkir ágætlega til knattspyrnu og landslið þeirra komst meira að segja í lokakeppni heimsmeistaramótsins árið 1974. Ófriður sem braust þar út fyrr á þessu ári varð hins vegar til þess að æfingamiðstöð knattspyrnumanna í landinu eyðilagðist. En þessi knattspyrnuleikur var vonartákn í landi sem vildi sameina og byggja upp fyrir bjartari framtíð.

„Þessi leikur er mikilvægur því að hann sýnir hvað Haiti getur áorkað sem sameinað land,” segir Billy Lorcy, einn sjálfboðaliða Rauða krossins. „Brasilía er með eitt besta knattspyrnulið heims. Við höfum lært að við verðum að vera sameinuð og stíga skref í átt til friðar til að bæta líf okkar.”