Rauða kross strákurinn Hjálpfús heimsækir leikskólana

Þóri Guðmundsson

2. sep. 2004

Kamilla Ingibergsdóttir framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða krossins afhendir Elísabetu Eyjólfsdóttur leikskólastjóra námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann."
Deildir Rauða kross Íslands eru þessa dagana að afhenda leikskólum um allt land námsefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann", sem hefur það markmið að kenna leikskólabörnum mikilvægi þess að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Námsefnið inniheldur litla brúðu og kennsluefni fyrir sex sögustundir. Rauða kross strákurinn Hjálpfús er í formi fingurbrúðu sem leikskólakennarar geta notað til að leiða börnin í gegnum námsefnið.

„Þetta efni er eins og sniðið að stefnu okkar í leikskólanum Álfaheiði," sagði Elísabet Eyjólfsdóttir leikskólastjóri þegar fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins afhentu henni námsefnið. „Við leggjum mikla áherslu á lífsmennt, sem byggir á nokkrum grundvallargildum eins og friði, virðingu og umburðarlyndi."

Grundvallarmarkmið Rauða krossins um mannúð án manngreinarálits er undirstaða alls kennsluefnis frá Rauða krossi Íslands. Markmiðið er að gera íslensku skólafólki kleift að gera mannúðarhugsjón Rauða krossins að sinni og þannig þroskast sem einstaklingar og sem hluti af þjóðfélagsheild. Það á jafnt við um leikskólabörn og þau sem eldri eru.

Deildir Rauða krossins um allt land munu á næstu vikum afhenda öllum 270 leikskólum landsins námsefnið um Hjálpfúsan. Rauða kross strákurinn kemur einnig fyrir í margvíslegu námsefni sem Rauði krossinn hefur sent grunnskólum, meðal annars í skyndihjálpar- og lífsleiknikennslu.

Nánari upplýsingar um námsefni Rauða krossins fyrir skóla landsins er að finna á skólavef Rauða krossins: /skoli