Rætt um börn í stríði á alþjóðlegum sumarbúðum á Snæfellsnesi

Þóri Guðmundsson

6. sep. 2004

 

Um þrjátíu ungmenni taka þátt í sumarbúðunum og ræða þar um málefni barna í stríði.
Um þrjátíu ungmenni frá átta löndum komu saman á Alþjóðlegum sumarbúðum Rauða kross Íslands á Snorrastöðum á Snæfellsnesi um helgina og ræddu um málefni barna í stríði. Fregnir bárust af því að hundruð barna hefðu látið lífið eftir að hafa verið tekin í gíslingu í Norður-Ossetíu í Rússlandi. Undirstrikuðu fréttirnar alvarleika umræðnanna og settu svip sinn á þær.

Á síðasta áratug er talið að tvær milljónir barna hafi látið lífið af völdum styrjaldarátaka. Í umræðunum á Snæfellsnesi var rætt um málefni barnahermanna, barna á flótta og barna sem er misþyrmt í ólgu átaka víða um heim.

Um helmingur þátttakenda í sumarbúðunum er frá Íslandi en aðrir eru frá Bandaríkjunum, Serbíu og Svartfjallalandi, Slóveníu, Sviss, Þýskalandi, Noregi og Suður-Afríku. Allir eru þeir leiðtogar í ungmennastarfi Rauða krossins í sínu heimalandi.

Sumarbúðirnar hófust á fimmtudag og þeim líkur í dag, mánudag. Í upphafi tók unga fólkið þátt í námskeiði Rauða krossins, Viðhorfi og virðingu, sem miðar að því að þátttakendur skiptist á skoðunum og takist á við eigin fordóma.