Samstarfsverkefni Kvennaathvarfsins og Urkí

Hrafnkell Tumi

9. sep. 2004

Um miðjan september hefst samstarf Kvennaathvarfsins við Ungmennadeild Reykjavíkurdeildarinnar og Háskóla Íslands um sjálfboðastarf til að sinna þeim börnum sem koma með mæðrum sínum í Kvennaathvarfið. 

Sjálfboðaliðar munu koma á laugardögum í vetur og gera eitthvað skemmtilegt með börnum sem dvelja í athvarfinu eða hafa dvalið þar. Markmiðið er að létta börnum dvölina í athvarfinu með markvissu félagsstarfi og sömuleiðis létta undir með mæðrunum. 

Verkefnið er unnið í samvinnu við félagsráðgjöf við Háskóla Íslands undir handleiðslu Steinunnar Hrafnsdóttur og mun stór hluti sjálfboðaliðanna koma þaðan en sjálfboðastarfið er hluti af námi fólks við deildina.

Að öllu jöfnu fara sjálfboðaliðarnir út úr húsi með börnin. Hvað þau gera er samkomulagsatriði í hvert sinn í samráði við börnin, mæður og starfsfólk Kvennaathvarfsins. Þetta getur verið ferð í Kringluna eða Smáralind, bíóferð, ferð í Húsdýragarðinn eða Kolaportið, sund og þar fram eftir götunum og veltur einnig á því sem í boði er í bænum hverju sinni. 

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Kvennaathvarfsins og Reykjavíkurdeildarinnar hlakka mikið til samstarfsins en svipað verkefni var í gangi fyrir nokkrum árum og gafst vel.