2.500 sjálfboðaliðar óskast!

Þóri Guðmundsson

27. sep. 2004

Þorkell Þorkelsson ljósmyndari, Kristján Sturluson varaformaður Rauða krossins, Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Ellert Schram forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands opnuðu ljósmyndasýningu sem er tileinkuð börnum í stríði í dag og hófu um leið átak til að safna 2.500 sjálfboðaliðum til að ganga til góðs.

Rauði kross Íslands ætlar að freista þess að fá 2.500 sjálfboðaliða til að safna fé til styrktar stríðshrjáðum börnum í landssöfnun félagsins Göngum til góðs, sem fram fer laugardaginn 2. október. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er verndari söfnunarinnar og kynnti hana við opnun ljósmyndasýningar Þorkels Þorkelssonar tileinkaðri börnum í stríði í Smáralind í dag.

Á fundinum í dag minnti Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á að tvær milljónir barna hefðu látið lífið í stríðsátökum á síðastliðnum tíu árum og að áður en dagurinn liði væri líklegt að 25 börn hefðu stigið á jarðsprengju. Mikil þörf væri á aðstoð við yngstu fórnarlömb stríðs.

Þetta er í þriðja sinn sem Rauði krossinn skipuleggur landssöfnun undir kjörorðunum Göngum til góðs. Síðast þegar gengið var fyrir tveimur árum voru um 1.800 manns skráðir til göngunnar. Markið er því sett enn hærra núna og á næstu sjö dögum ætlar Rauði krossinn að höfða til allra landsmanna um að taka þátt með því annað hvort að ganga eða gefa í söfnunina.

Árið 2002 gáfu landsmenn samtals rúmlega 30 milljónir króna sem notaðar voru til að koma í veg fyrir hungursneyð í sunnanverðri Afríku. Alnæmisverkefni sem safnað var fyrir árið 2000 eru nú komin á laggirnar í Mósambík og Malaví.

Laugardaginn 2. október verður safnað til stuðnings börnum sem þjást vegna stríðsátaka. Allt fé sem safnast fer til verkefna til stuðnings börnum. Meðal annars hefur Rauði kross Íslands einsett sér að aðstoð við endurhæfingu stríðshrjáðra barna í Sierra Leone í vestanverðri Afríku, þar sem harðvítug borgarastyrjöld er nú yfirstaðin, og sálrænum stuðningi við börn í Palestínu.

Á fréttamannafundinum í dag lýsti Ellert Schram forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands yfir því að íþróttahreyfingin myndi taka virkan þátt í söfnuninni. Þannig hafa KSÍ og HSÍ hvatt aðildarfélög sín til að tileinka eina æfingu þátttöku í göngunni á laugardaginn 2. október.

Ljósmyndasýning Þorkels í Smárlind lýsir á áhrifamikinn hátt aðstæðum barna í stríði. Myndirnar eru teknar á tólf ára tímabili, 1992 – 2004, í Sómalíu, Suður-Súdan, Eþíópíu, Afganistan, Palestínu, Víetnam og Írak. Sýningin stendur fram yfir söfnunardaginn. 

Hægt er að skrá sig til göngunnar á vef Rauða krossins, www.redcross.is, og þar er einnig að finna nánari upplýsingar um málefnið.

Frekari upplýsingar veitir Þórir Guðmundsson í síma 898 4784.