Páll Pétursson hlýtur æðstu viðurkenningu Rauða kross Íslands

Þóri Guðmundsson

11. des. 2004

Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson veitir Páli Péturssyni viðurkenningu á 80 ára afmæli Rauða kross Íslands.
Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson sæmdi Pál Pétursson æðstu viðurkenningu Rauða kross Íslands – heiðursmerki úr gulli - í dag, á 80 ára afmæli félagsins. Sem félagsmálaráðherra ákvað Páll að bjóða árlega, utan eins árs, hópum flóttamanna frá gömlu Júgóslavíu til Íslands, alls 218 manns.

Í rökstuðningi fyrir veitingunni segir að auk þess að hafa staðið fyrir hingaðkomu flóttamanna hafi Páll á ráðherraferli sínum beitt sér fyrir stofnun Fjölsmiðjunar, sem er verkþjálfunarsetur fyrir ungt fólk, og látið málefni geðfatlaðra til sín taka. Verkefni til stuðnings geðfötluðum hafa verið forgangsverkefni Rauða krossins á síðustu árum.

„Páll tók mjög jákvætt á málefnum flóttamanna, með sínum persónulega hætti, og lét sig varða hag þeirra eftir að þeir komu til landsins,” sagði forseti þegar hann afhenti Páli viðurkenninguna. Um er að ræða æðstu viðurkenningu Rauða kross Íslands, sem síðast var veitt árið 1999.

Afhendingin fór fram við athöfn í dag í tilefni af afmælinu. Við sama tækifæri afhenti Einar Sveinsson formaður menningarsjóðs Íslandsbanka og Sjóvár Almennra Rauða krossi Íslands tvær milljónir króna til ungmennahúsa, sem deildir félagsins hafa haft forgöngu um víða á landsbyggðinni.

Í afmælisboði Rauða krossins í dag sungu börn af erlendum uppruna undir stjórn Ellenar Kristjánsdóttur nokkur íslensk þjóðlög og lesin voru ljóð eftir Nenu Marijan flóttakonu frá fyrrum Júgóslavíu og Leif Jóelsson gest Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir.

Þá afhentu Ellen og bróðir hennar KK Rauða krossinum gjafabréf um afnotarétt félagsins á laginu When I Think of Angels, en myndband með laginu hefur verið notað á vegum Rauða krossins hér á landi og víða um heim undanfarin misseri.