Konukot, athvarf fyrir heimilislausar konur var opnað á 80 ára afmæli Rauða kross Íslands

Þóri Guðmundsson

11. des. 2004

Katla Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Brynhildur Barðadóttir verkefnastjóri og Ómar Kristmundsson formaður deildarinnar fyrir utan Konukot.
Athvarf fyrir heimilislausar konur var formlega opnað í Reykjavík í dag, á 80 ára afmæli Rauða kross Íslands. Ómar H. Kristmundsson formaður Reykjavíkurdeildar opnaði húsið að viðstöddu fjölmenni, meðal annars Úlfari Haukssyni formanni félagsins og Björk Vilhjálmsdóttur formanni félagsmálaráðs Reykjavíkur, en Reykjavíkurborg leggur til húsnæðið.

Björk sagðist vilja þakka Rauða krossinum fyrir að hafa vakið athygli á vanda heimilislausra kvenna. „Rauði krossinn er oft í fararbroddi og sýnir yfirvöldum fram á þörfina og þá geta þau tekið við,” sagði Björk. „Ég efast ekki um að þannig verður það með þessa starfsemi.”

Athvarfið er rekið af Reykjavíkurdeild Rauða krossins að Eskihlíð 4 og hefur hlotið nafnið Konukot. Þar eru rúm fyrir átta konur auk hreinlætis- og þvottaaðstöðu. Talið er að á milli 20 og 40 konur í höfuðborginni séu heimilislausar.

„Óskilyrt aðstoð við fólk í neyð og umburðarlyndi gagnvart öllum mönnum er markmið Rauða krossins,” segir Úlfar Hauksson formaður Rauða kross Íslands. „Með þá hugsjón að leiðarljósi leggjum við okkar af mörkum til að byggja betra samfélag.”

Rauði kross Íslands var stofnaður 10. desember 1924, en allmargir áhugamenn um Rauða krossinn höfðu þá fylgst með starfi hreyfingarinnar í Evrópu. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Björnsson, sem síðar varð forseti Íslands.

Fyrsta áratuginn voru helstu viðfangsefni félagsins sjúkraflutningar, sjúkraþjónusta meðal vertíðarmanna á Suðurnesjum og útbreiðsla skyndihjálpar. Fyrsti sendifulltrúi Rauða krossins var Lúðvig Guðmundsson, sem fór til Þýskalands árið 1945 og aðstoðaði Íslendinga höfðu lifað af stríðsárin í Evrópu.

Með tilkomu söfnunarkassa árið 1973 stórefldist starfsemi Rauða krossins bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Leiðarljós Rauða kross Íslands er að bregðast við neyð jafnt innanlands sem utan og veita aðstoð sem gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum auk þess sem félagið stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga.

Sem dæmi um starfsemina má nefna að á hverju ári heimsækja um 750 einstaklingar með geðraskanir eitthvert af fjórum athvörfum félagsins fyrir geðfatlaða. Sjúkrabílar félagsins flytja meira en 15.000 manns á ári. Um 7.000 manns fá árlega útgefið skyndihjálparskírteini af Rauða krossinum. Um eitt þúsund börn fá árlega góð notuð föt úr fataflokkun Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Í september hringdu 1.500 manns í Hjálparsíma Rauða krossins 1717, sem er opinn allan sólarhringinn.

Um 1.300 sjálfboðaliðar vinna að verkefnum Rauða krossins í 51 deild um allt land.  Þeir styðja við starfsemi athvarfa félagsins, heimsækja aldraða, sjúka og einmana, skipuleggja neyðarvarnir og sinna einstaklingsaðstoð í nærsamfélaginu.

Á hverju ári fara milli 20 og 30 sendifulltrúar til alþjóðlegra hjálparstarfa á vegum Rauða kross Íslands. Fyrir tilstuðlan félagsins er hlúð að hundruðum alnæmissjúkra einstaklinga í sunnanverðri Afríku og forvarnastarf nær til tuga þúsunda til viðbótar.

Deildir félagsins fagna afmælinu á margvíslegan hátt, sumar með því að hafa opið hús, undir yfirskriftinni „Byggjum betra samfélag.”