Rauði krossinn á skátamóti

Hildi Tryggvadóttur Flóvenz

12. ágú. 2005

Það var svona í heitara lagi fyrir Ísland þegar ég beygði inn á Hafravatnsafleggjarann um hálf tvöleytið. Ég geispaði, opnaði gluggann og reyndi að einbeita mér að akstrinum. ,,Agalega er heitt” hugsaði ég með mér og kveikti líka á miðstöðinni. Ég brunaði áfram eftir veginum en ferðinni var heitið á Úlfljótsvatn. Ég hafði tekið það að mér snemma í sumar að vera með verkefni frá Rauða krossinum á alþjóðlegu skátamóti á Úlfljótsvatni. Ég vissi svo sem ekki við hverju var að búast. Ég hafði aldrei áður farið á skátamót, þekkti lítið til starfsemi skátanna og vissi þess vegna ekkert hvað ég var í raun að fara út í. Ég hafði fengið leiðbeiningar um hvert ég ætti að fara þegar ég kæmi á svæðið. ,,Þú ferð bara að hvítu húsunum og þar fyrir neðan er blátt og hvítt tjald sem þú fer í, þar er Alþjóðaþorpið, þú verður þar” sagði kona við mig í símann sem ég var í sambandi við. Ég sá hvítu húsin þegar ég kom en ég sá líka nokkur blá og hvít tjöld! Eftir að vera búin að kíkja í eitt vitlaust blátt og hvít tjald fann ég Alþjóðaþorpið og hið rétta hvíta og bláa tjald. Þar tók á móti mér yndislega kona sem leiddi mig í allan sannleikann um skátamótið, hvað væru margir á staðnum, hvernig dagskráin væri og hvert mitt hlutverk væri á mótinu.

Verkefni Rauða krossins var staðsett í Alþjóðaþorpinu, nánar tiltekið í Evrópu. Þorpinu var sem sagt skipt upp í heimsálfur og í hverri heimsálfu voru nokkur mismunandi verkefni. Þátttakendur áttu á meðan mótinu stæði að leysa að minnsta kosti eitt verkefni í hverri heimsálfu. Að því loknu fengu þau stimpil í mótsbókina sína. Heppnin var með skátum vikuna sem mótið var því það var þvílík blíða allan tímann. Verkefnin voru því staðsett úti og ég breiddi úr Rauða kross fánanum á grasið og plantaði mér sjálfri við hliðina og smám saman fór allskonar fólk að heimsækja mig, fræðast um Rauða krossinn og leysa verkefni. Ég lagði áherslu á að segja frá grundvallarmarkmiðunum og segja frá því starfi sem Rauði krossinn vinnur með börnum. Sumir voru áhugasamari en aðrir og stöldruðu lengi við bara til að spjalla. Aðrir stoppuðu stutt við, leystu verkefni og hlustuðu með athygli. Sumir voru einir á ferð en aðrir komu í hópum. Í lokin þegar verkefnið var leyst þá kvittaði ég í bókina hjá þeim til staðfestingar um að þau hefðu leyst verkefni í Evrópu og þau héldu á braut að leysa fleiri verkefni.

Það var gaman að sjá hve breiður hópur fólks var saman komin á mótinu. Fólk á öllum aldri var saman komið í blíðunni að taka þátt. Þó flestir sem heimsóttu verkefni Rauða krossins hefðu verið krakkar á aldrinum 10-16 ára kom allskonar fólk að forvitnast. Það kom til dæmis til mín hópur af áströlskum konum um fimmtugt sem höfðu frá mörgu að segja um starf Rauða krossinn í Ástralíu og vildu vita sem mest um starf Rauða krossins annars staðar í heiminum. Það kom líka til mín hópur af unglingstrákum sem vildu ólmir fara í leikinn Á flótta. Það heimsótti mig líka írskur maður sem hafði starfað fyrir Rauða krossinn í sínu heimalandi og tvær bandarískar konur sem eru sjálfboðaliðar í Rauða krossinum í sínu landi.

Ég var sólbrennd þegar ég steig upp í bílinn og hélt heim á leið að loknum góðum degi á skátamótinu. Ég var jafnframt afskaplega ánægð með þau góðu viðbrögð sem ég fékk og glöð og þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast örlítið starfi skátanna og þannig lært aðeins meira um heiminn í kringum mig.