Krakkar á Húsavík voru ,,Á flótta"

Tumi Kolbeinsson

12. okt. 2005

 

 

Krakkarnir voru í hlutverki flóttamanna í einn sólarhring.
Fjörutíu unglingar á Húsavík tóku þátt í „Á flótta" leiknum um sl. helgi í tengslum við Ungmennahúsið Tún á Húsavík og Húsavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Á flótta er hlutverkaleikur þar sem unglingar eru í hlutverki flóttamanna í einn sólarhring og fá að reyna á eigin skinni ýmsar dæmigerðar aðstæður sem flóttamenn lenda í. Leiðbeinendur, sem allir hafa sótt þar tilgerð námskeið, eru í hlutverkum landamæravarða, lögreglu og þar fram eftir götunum.

Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar hefur um nokkurra ára skeið staðið fyrir þessu verkefni, sem á uppruna sinn í Danmörku. Innan Ungmennadeildarinnar hefur sjónum lengi verið beint að því hvernig hægt sé að standa að þessum leik á landsbyggðinni, en það er bæði kostnaðarsamt og krefst töluverðrar umsýslu af hendi Rauða kross deildarinnar á staðnum.  

Í upphafi þessa árs lagði Menningarsjóður Íslandsbanka og Sjóvá-almennra til styrk sem skyldi renna í rekstur og verkefni þeirra ungmennahús sem heyra undir Rauða kross Íslands. Eitt þeirra verkefna er leikurinn „Á flótta". Viðamikið leiðbeinendanámskeið fyrir ungt fólk var haldið og voru þátttakendur víða að af landsbyggðinni. Þeirra hlutverk er í framtíðinni að vinna verkefninu brautargengi hvert á sínum stað. Kennarar komu frá Danmörku og héldu námskeiðið.

Leikurinn síðustu helgi gekk mjög vel og er verkefnið á miklu flugi þessa dagana og leikir á ýmsum stöðum í farvatninu. 

Ef áhugi er fyrir hendi að fá að taka þátt í leiknum "Á flótta" hafið samband við Tuma hjá Reykjavíkurdeild tumi@redcross.is