Rauði krossinn leggur Heilsugæslu Hornafjarðar lið

Gunnlaugur Bragi

20. des. 2005

 

Þórgunnur Torfadóttir afhendir Ragnhildi Magnúsdóttur hálfa milljón í söfnunina.


Þórgunnur Torfadóttir afhenti Ragnhildi Magnúsdóttur héraðslækni á Hornafirði hálfa milljón króna frá Hornafjarðardeild Rauða krossins í gær. 
Heilsugæslan á Höfn fór af stað með söfnun fyrr í haust og er stefnan að kaupa ný röntgentæki um leið og nægilegt fjármagn hefur safnast.
Að sögn héraðslæknis eru þau gömlu á síðasta snúningi, þau virka alls ekki alltaf þegar grípa á til þeirra og ómögulegt er að fá varahluti í þau. Röntgentækin og framköllunarvélin sem þeim fylgja eru hreinlega orðin að safngripum!
Ný stafræn röntgentæki kosta um ellefu milljónir og nú þegar hafa safnast um sex milljónir og eru þær að mestu komnar frá einstaklingum.
Með stafrænum röntgentækjum er læknum á Hornafirði gert kleift að vera beintengd við sérfræðinga í Reykjavík eða á Akureyri og geta því fengið faglega aðstoð strax.
Með nýju tækninni er hægt að mynda fleira og betur, geislamagn á sjúklinga og starfsfólk minnkar, auk þess er hún mun auðveldari í notkun fyrir starfsfólk heilsugæslustöðvarinnar.

Starfsfólk Heilsugæslunnar á Höfn er að vonum ánægt með þetta framlag Rauða krossins en vill hvetja sem flesta til að leggja söfnuninni lið,  því miklu máli skiptir fyrir íbúa sveitarfélagsins að góð röntgentæki séu á staðnum.
Reikningur söfnunarinnar er í Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis, nr. 1147- 05- 401400. Kennitalan er 550185-0329, en þess má geta að Sparisjóðurinn gaf 250.000 krónur til söfnunarinnar.