Veruleg fjárhæð til hjálparstarfs í Pakistan

18. jan. 2006

Aníta Ólöf Jónsdóttir og Hjördís Einarsdóttir afhenda Garðari Guðjónssyni söfnunarféð, framkvæmdastjóri RKÍ, Krstján Sturluson fylgist með.


 Aníta Ólöf Jónsdóttir og Hjördís Einarsdóttir afhentu í dag Kópavogsdeild Rauða kross Íslands ágóðann af tónleikum til styrktar jarðskjálftanum í Pakistan sem haldnir voru í Austurbæ 29. desember síðastliðinn.  

Upphæðin sem safnaðist vegna tónleikanna var 610.000 kr. en auk þess voru lagðar inn 280.000 kr. á söfnunarreikning Rauða krossins dagana í kringum tónleikana. Samtals söfnuðust því 890.000 kr. sem renna óskertar í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum.

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og stjórnarmaður í Rauða krossi Íslands, tók við fénu fyrir hönd félagsins. Hann þakkaði Anítu, Hjördísi og þeim fjölmörgu öðrum sem komu að verkefninu fyrir þetta mikilsverða framlag til hjálparstarfsins í Kasmír.

„Þetta var aðdáunarvert framtak hjá ykkur og ég færi ykkur bestu þakkir frá Rauða krossi Íslands og fyrir hönd þeirra sem munu njóta góðs af,” sagði Garðar.

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, og Fanney Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, voru einnig viðstödd móttöku söfnunarfjárins.

Tónleikarnir heppnuðust mjög vel og þar var góð stemmning. Þeir tónlistarmenn og hljómsveitir sem komu fram voru (í réttri röð): Shadow Parade, Pétur Ben, Ske, Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson, Leaves, Dúndurfréttir, Cynic Guru, Ragnheiður Gröndal, Twisted Reality Show, Myst, Jagúar og Milljónamæringarnir ásamt Bogomil Font og Páli Óskari.

Valtýr Bjarki Valtýsson hannaði auglýsingaplakatið fyrir tónleikana og hljóðmenn og ljósamenn gerðu umgjörð tónleikanna svo sannarlega glæsilega. Kynnirinn, Atli Þór Albertssyni leikari, fór á kostum þetta kvöld og kynnti hvert atriðið á eftir öðru af miklum myndarskap.

Styrktaraðilar tónleikanna voru: Landsbankinn, Kópavogsbær, KB banki, OgVodafone, VÍS, Sagafilm og Svansprent.