Ungmennastarf hafið að nýju

Áshildi Linnet

2. feb. 2006

Hér má sjá hluta þeirra sem mættu á fyrsta fundinn hjá URKÍ-H.
Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands í Hafnarfirði, eða URKÍ-H, tók til starfa að nýju í gærkvöldi eftir nokkura ára hlé. Það voru um 15 manns sem mættu á fyrsta fundinn og kynntu sér það starf sem boðið verður uppá fram á sumarið.

Krakkarnir horfðu á stutt kynningarmyndband um Rauða krossinn, kynntu sig fyrir þeim sem mættir voru og skoðuðu aðstöuna hjá Hafnarfjarðardeildinni. Því næst var sest niður í hugmyndavinnu en flest höfðu þau fullt af góðum hugmyndum um hvernig þau sjálf vilja móta starfið. Að lokum var rykið dustað af gömlum spilastokkum og slegið á létta strengi.

Í starfinu í vetur verður lögð sérstök áhersla á að bjóða unga innflytjendur velkomna í starfið og mættu fjórir nemendur í móttökudeildinni í Lækjarskóla á þennan fyrsta fund. Meðal þeirra verkefna sem URKÍ-H ætlar að vinna að á þessu vori er vegabréfaverkefni þar sem krakkarnir kynna sér menningu og aðstæður ólíkra landa og fá kanski að smakka á framandi réttum. Unnið verður í fataflokkunarverkefni í samvinnu við sjálfboðaliða í Fataflokkunarstöð Rauða krossins að Gjótuhrauni 7, farið í ýmsar skoðunarferðir og margt fleira.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í ungmennastarfinu láttu þá sjá þig í Sjálfboðamiðstöð Rauða krossins að Strandgötu 24 á fimmtudögum kl. 17:30. Starfið er ætlað öllum 12 ára og eldri og því stýra fimm leiðbeinendur.