Óvissuferð Mórals

21. maí 2012

Í síðustu viku fór Mórall - ungmennastarf Kjósarsýsludeildar - í óvissuferð.  Krakkarnir mættu spenntir með svefnpokana sína í Þverholtið og voru ekki alveg viss hvort gista ætti í Rauðakrosshúsinu eða fara eitthvað út fyrir bæinn.

Þegar hópnum var smalað upp í bílana voru þau samt nokkuð viss um að förinni væri heitið eitthvað út á land - sem reyndist svo auðvitað rétt hjá þeim.  Brunað var vestur í Búðardal þar sem Rauðakross deildin tók vel á móti hópnum.   Nánasta umhverfi var skoðað, farið í leiki, grillaðar pulsur, sagðar draugasögur, vakað fram á nótt og sofið lengi frameftir.  Að sjálfsögðu var ekki hægt að ljúka ferð á þessar söguslóðir án þess að skoða Eiríksstaði og kynnast því hvernig landnámsmenn bjuggu fyrir 1000 árum síðan og smakka flatbrauð sem bakað var yfir eldi.

Nú er vetrarstarfinu lokið hjá Móral og verður þráðurinn tekinn aftur upp í haust.

Myndir úr ferðinni má finna á Facebooksíðu deildarinnar hérna.