Heimsókn í Rauða krossinn

nemendur í Fossvogsskóla

22. feb. 2006

Þrjár fréttasyrpur eftir nemendur skólans um heimsókn í Fataflokkunarstöð Rauða krossins. Tekið af heimasíðu skólans og birt með góðfúslegu leyfi.

Þriðjudaginn 14. febrúar s.l. fór H-14 í heimsókn í fataflokkunarstöð Rauða krossins. Svona vettvangsferðir eru lærdómsríkar.

Fáir geta ímyndað sér hvernig starfssemi Rauða krossins er fyrr en maður er kominn þangað og sér þetta með eigin augum. Hérna koma þrjár fréttir sem nemendur skrifuðu um heimsóknina þangað. 

Um 1,200 tonn af fötum fara árlega frá landinu
Þann 14. febrúar 2006 fór hópur 14 í heimsókn til Rauða krossins í Hafnarfirði. Þar tók Örn, starfsmaður Rauða krossins á móti okkur og fræddi okkur um starfsemi Rauða krossins. Hann sagði okkur hvert fötin fara sem við gefum, hvar þörfin er mest og hvernig fatnaður er sendur til útlanda. Hann fræddi okkur lítillega um stofnun Rauða krossins og sagði okkur frá Svisslendingnum Henry Dunant, sem stofnaði samtökin 1863.

Okkur fannst mjög merkilegt að það fara um 1200 tonn árlega af fötum frá landinu sem er gífurlega mikið magn. Eftir fræðsluna skoðuðum við fatnað sem þurfandi Íslendingar geta fengið mánaðarlega. Í þeirri deild vinnur 78 ára gömul kona sjálfboðavinnu í um 520 klukkustundir á ári. Í lokin fengum við að flokka föt í 2 flokka þ.e.a.s. hlý föt og létt.

Leðurfatnaður og undirföt eru ekki send til útlanda, Leðurföt eru ekki send vegna trúarbragðareglna, sem banna slíkan fatnað. Það er mest um ungbarnaföt, fyrir aldurinn 0-3 ára. Mjög góð föt eru seld til annarra landa eða hérlendis og peningarnir notaðir til hjálparstarfa. Þetta var mjög fróðleg og skemmtileg heimsókn.

Þórunn, Ólafur, Telma og Ragnhildur

Við fengum að flokka nokkra fulla poka af fötum
Þriðjudaginn 14. febrúar var hópi 14 boðið í heimsókn til Rauða krossins í Hafnafirði þar sem kynnt var fyrir okkur starfsemi deildarinnar, sem er fataflokkun. Maður að nafni Örn, sagði okkur frá flokkuninni og til hvaða landa fötin fara. Bestu og flottustu fötin eru seld í Rauðakrossbúðinni á Laugaveginum.

Peningarnir sem safnast þar eru notaðir til að kaupa hentugri föt sem eru send til fátækra landa. Föt sem eru alveg ónothæf, eins og ullarpeysur og aðrar þykkar flíkur, eru send til annarra landa í Evrópu þar sem búnir eru til nothæfir hlutir eins og bílaáklæði, mottur og fleira og peningarnir sem fást fyrir þetta eru notaðir í góðgerðarstarfsemi. Nærföt eru ekki send til þróunarlanda. Við krakkarnir fengum að flokka nokkra fulla poka af fötum.

Það var einróma álit krakkanna í hópi 14 að þetta hafi verið fræðandi og skemmtileg ferð.

Óli Geir, Arna og Hjördís J 

Duglegasti sjálfboðaliðinn er 78 ára gömul kona
Þriðjudaginn 14. febrúar fór hópur 14 í heimsókn til Rauða krossins í Hafnarfirði. Þar fengum við upplýsingar um starfsemina og fengum líka að flokka föt. Góðu fötin eru gefin eða seld og ágætu fötin eru send til landa þar sem þörfin er mest en verstu fötin send til Hollands og eru hökkuð í búta sem eru síðan notaðar í mottur.
Starfsmaðurinn sem tók á móti okkur heitir Örn og hann fræddi okkur um sögu Rauða krossins. Flestir sem vinna þarna eru sjálfboðaliðar en duglegasti sjálfboðaliðinn er 78 ára gömul kona.

Aron, Helgi, Huldar og Helgi

Myndasyrpa frá heimsókninni: